MERKIR ÍSLENDINGAR – SIGURÐUR ÞÓRÐARSON

Sigurður Þórðarson fæddist að Gerðhömrum í Dýrafirði þann 8. apríl 1895, sonur hjónanna Þórðar Ólafssonar (1863 – 1948), prófasts  á Söndum og Þingeyri, og Maríu Ísaksdóttur (1867 -1943) húsfreyju.

Eiginkona Sigurðar var Áslaug Sveinsdóttir (1905 – 2000) frá Hvilft í Önundarfirði og eignuðust þau tvö börn, sem bæði dóu ung.

Sigurður lauk prófi frá Verzlunarskólanum í Reykjavík 1915, var verslunarmaður á Akureyri um skeið, starfaði í Landsbankanum í Reykjavík en lærði á orgel, píanó og fiðlu og stundaði nám í tónlist hjá Eyrbekkingnum Sigfúsi Einarssyni, frú Önnu Pétursson, móður dr. Helga Pjeturss, Oscar Johansen og Stokkseyringnum Páli Ísólfssyni, sem hvatti hann til að fara utan til frekara náms.

Sigurður lagði stund á píanó- og fiðlunám og hljómfræði í Tónlistarskólanum í Leipzig 1916-18 en hvarf þá heim vegna fjárskorts, var skrifstofumaður hjá G. Copland & Co.

Sigurður var skrifstofustjóri Ríkisútvarpsins frá stofnun þess 1930 og þar til hann fór á eftirlaun. Auk þess gegndi hann oft útvarpsstjórastarfinu í fjarveru útvarpsstjóra.

Þó að Sigurður sinnti tónlistinni í hjáverkum varð hann einn þekktasti kórstjóri landsins og var auk þess prýðilegt tónskáld. Hann stjórnaði Karlakórnum Þröstum í Hafnarfirði 1923-26, stofnaði Karlakór Reykjavíkur 1926 og stjórnaði honum til 1966. Á þeim árum gerði kórinn víðreist til Norðurlandanna, Mið-Evrópu, Bandaríkjanna, Kanada og Miðjarðarhafslanda.

Sigurður samdi óperettu, kantötur, tónsmíðar fyrir píanó, orgel, hljómsveit og fjölda sönglaga.

Eitt þekktasta tónverk hans er Alþingishátíðarkantata frá 1930, en þar er alkunnur kaflinn „Sjá, dagar koma.“ Hann var ljóðrænt sönglagatónskáld og átti hægt með að semja eftir ljóðforminu.

Sigurður var sæmdur fálkaorðunni, Buffalo-orðunni, æðsta heiðursmerki Manitobafylkis, sæmdur medalíu af páfanum og var heiðursfélagi Winnipeg-borgar, Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi og fjölda söngfélaga.

Sigurður lést þann 28. október 1968.

Gerðhamrar í Dýrafirði

Skráð af Menningar-Bakki.

DEILA