Minning: Gunnar Ragnarsson, skólastjóri

F. 20. júní 1926 – d. 20. maí 2019.

Útför hans fór fram 4. júní 2019.

Hann stendur álútur og styður hægri hendi á borðplötuna undir kaffikönnu kennarastofunnar, setur á tölu um fánýti mannlegrar tilveru þegar sóst er eftir eintómum hégóma – og kveður fast að orði. Nei, hér er ekki á ferðinni neitt slitrótt muldur í barm sér. Hvert einasta hljóð tungunnar hljómar svikalaust “svo að heyrist í gegnum brimgnýinn og eldgosadrunurnar” eins og segir á einum stað. Af sjálfu leiddi, að Gunnar Ragnarsson var áheyrilegastur upplesari einhver, sem hugsast gat.  Mér er sem ég heyri enn þá flugið í flutningnum, þegar hann las sögu af dýru brauði: “Því sem manni er trúað fyrir, því er manni trúað fyrir…Héld maður þurfi ekki einlægt að vera að éta, sagði konan. Það er ósiður…Og ég veit ekki fyr, segir konan, en mig er farið að lánga í kaffi.”

Gunnar var fullkomlega laus við hvers konar uppskafningshátt, dyndilmennsku og smjaður. Svo hreinskilinn var hann og falslaus, að ýmsum mun hafa  þótt nóg um; Bolvíkingar höfðu þó margir munninn fyrir neðan nefið sjálfir. Haft var eftir barnkrakka langt innan við fermingu: “Gunnsi skólastjóri! Maður segir nú bara nokkur vel valin orð við hann og svo steinheldur hann kjafti!” Óþarft að taka fram, að bragðið mundi fráleitt hafa lánast þótt beitt hefði verið, sem reyndar ekki var.

               Andlegt atgervi hans var af þeirri stærðargráðu, að dr. Broddi heitinn skólastjóri Kennaraskólans mun hafa látið svo um mælt, að nemanda á borð við Gunnar fengju skólastofnanir inn fyrir dyr hjá sér einu sinni á öld. Lærisveinninn skrifaði seinna snilldargrein um meistara sinn, sem hann mat mest allra manna.

               Ég hygg, að Gunnar hafi verið músíkalskur að hófi; mér er raunar nær að halda að hann hafi verið laglaus. Þeim mun meira undur að sonarsonur hans skuli einn flínkastur íslenskra fiðluleikara, sem nú eru á dögum. En afi drengsins í móðurætt, erlendur maður, mun hafa verið virtúós á þetta viðkvæma hljóðfæri.

               Gunnar samdi bók um ensk-ameríska heimspekinginn A. N. Whitehead.   Þá þýddi hann með ágætum á íslensku ritið “Samræður um trúarbrögðin” eftir skoska heimspekinginn David Hume (1711-1776), sem talinn hefur verið fremstur hugsuða á Bretlandseyjum. Kenningar hans snerust meðal annars um að sanna hve gagnslaust væri að freista þess að útlista reynslu manna með því að vísa til hins yfirnáttúrulega. Nær væri að einbeita sér að lífinu hérna megin grafar og deyja síðan án uggs og ótta. Það segir sig sjálft, að prestum við Djúp var betra að vera ekki að marki slakir í trúfræðinni, ef rökrætt skyldi við skólastjórann í Víkinni.

               Þau elskulegu hjón Anna kennari og Gunnar voru samhentir vinnufélagar og starfshættir í skólanum í Bolungarvík vandaðir svo sem allra best varð á kosið.  Anna kenndi íslensku og bókmenntir með mikilli hind, nákvæm og gjörhugul í hvívetna. Mér er til efs að margir lesendur Gísla sögu Súrssonar hafi farið nær um það en hún, hver vó Véstein.

                                                                                         Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

DEILA