Fagráðstefna skógræktar á Ísafirði

Úr skóginum í Tungudal Skutulsfirði. Ljósmynd: Áskell Þórisson

Ísafjörður er vettvangur hinnar árlegu Fagráðstefnu skógræktar að þessu sinni. Ráðstefnan fer fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og hófst með ávarpi fulltrúa ráðuneytisins og skógræktarstjóra klukkan níu í morgun. Streymt er frá ráðstefnunni.

Skógar og loftslagsbreytingar

Þema ráðstefnunnar að þessu sinni er skógrækt á tímum hamfarahlýnunar. Áhersla verður á þetta þema fyrri ráðstefnudaginn. Halldór Þorgeirsson, formaður Loftslagsráðs, talar í upphafserindi ráðstefnunnar um hlutverk skógræktar í baráttunni við loftslagsbreytingar. Arnór Snorrason, deildarstjóri loftslagsdeildar á rannsóknasviði Skógræktarinnar, greinir frá nýrri spá um bindingu skóglenda fram til 2050 og að því búnu er erindi Bjarna Diðriks Sigurðssonar, prófessors við LbhÍ, og Halldórs Björnssonar á Veðurstofunni um loftslag framtíðar, ræktunarskilyrði og náttúruvá. Því næst eru erindi tveggja sérfræðinga á rannsóknasviði Skógræktarinnar. Brynjar Skúlason talar um aðlögun erfðaefnis skógræktar að loftslagsbreytingum og Brynja Hrafnkelsdóttir um áhrif hlýnunar á skaðvalda í skógum.

Eftir hádegi verður ýmis náttúruvá áberandi í dagskránni enda Ísafjörður að mörgu leyti miðstöð á því sviði. Ráðstefnugestir fá að heyra um Háskólasetrið á Vestfjörðum hjá Matthías Kokorsch, námsframboð þar og skógartengd verkefni. Aðlögunarhæfni lítilla og afskekktra samfélaga að náttúruvá á tímum loftslagsbreytinga er umfjöllunarefni Jóhönnu Gísladóttur, umhverfisstjóra Landbúnaðarháskólans, og svo fjallar Hreinn Óskarsson, sviðstjóri þjóðskóganna, um skógarskaða og aðlögun að loftslagsbreytingum. Ólafur Eggertsson, jarðfræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, greinir frá því hvernig meta má snjóflóðasögu með aðferðum árhringjafræða og síðasta erindið fyrri daginn verður beint frá Sviss þegar Dr. Peter Bebi hjá CERC-rannsóknamiðstöðinni talar um tré, landhalla og ofanflóð.

Tæplega eitt hundrað manns sækja Fagráðstefnu skógræktar hvaðanæva af landinu. Fyrir fólk sem ekki hefur tök á að koma á staðinn verður boðið upp á streymi og erindi birt á vefnum. Slóð til að fylgjast með streymi verður birt áður en ráðstefnan hefst.

Nánari upplýsingar og dagskrá

DEILA