Ísafjarðarbær: bæjarráð fagnar nýjum tillögum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar, sem kjörin var 1. maí 2022. Mynd: isafjordur.is

Bæjarráð Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt bókun um nýjar tillögur um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og verður hún send sem umsögn sveitarfélagsins í samráðsgátt stjórnvalda.

„Bæjarráð Ísafjarðarbæjar fagnar tillögum að breytingum á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem hafa það að markmiði að einfalda útreikninga og bæta gæði jöfnunar. Mikilvægt er að Jöfnunarsjóður sinni með raunverulegum hætti því mikilvæga hlutverki að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga með framlögum úr sjóðnum en aðstæður sveitarfélaga landsins eru afar ólíkar sem koma þarf til móts við. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tekur undir þá áherslu sem birtist í tillögunum um markvissa jöfnun, og að jöfnunarkerfið styðji áfram við bakið á meðalstórum sveitarfélögum og þau sveitarfélög sem hafa fleiri en einn þéttbýliskjarna og flóknar útgjaldaþarfir. Jafnframt má horfa til nýs framlags vegna höfuðstaðaálags, en önnur sveitarfélög utan Akureyrar og Reykjavíkurborgar, eru í dag einnig að veita mikla og fjölþætta félagslega þjónustu sem einnig mætti taka tillit til.“

Samkvæmt tillögunum mun framlag sjóðsins aukast til Ísafjarðarbæjar um 171 m.kr. á ári og um 32 m.kr. í Bolungavík en lækka um 280 m.kr. til sjö annarra sveitarfélaga á Vestfjörðum.

DEILA