Arndís Þorbjarnardóttir fæddist á Bíldudal í Arnarfirði þann 26. mars 1910 og ólst þar upp.
Foreldrar hennar voru Þorbjörn Þórðarsonar, héraðslæknir á Bíldudal, og Guðrún Pálsdóttir húsfreyja.
Þorbjörn var sonur Þórðar, hreppstjóra á Neðra-Hálsi í Kjós Guðmundssonar, b. í Laxárnesi Gíslasonar. Móðir Þorbjarnar var Guðrún Guðmundsdóttir, vinnumanns á Bessastöðum Ísakssonar.
Guðrún, móðir Arndísar, var dóttir Páls, prófasts í Strandaprófastsdæmi og alþm. Strandamanna Ólafssonar, prófasts og alþm. Pálssonar, pr. í Ásum Ólafssonar. Móðir Páls alþm. var Guðrún Ólafsdóttir, Stephensen sekretéra í Viðey Magnússonar. Móðir Guðrúnar var Sigríður Stefánsdóttir, amtmanns á Hvítárvöllum Stephensen.
Systkini Arndísar:
Páll, skipstjóri og alþm. í Vestmannaeyjum;
Þórður, Ph.D. fiskiðnfræðingur og forstjóri Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins, faðir Þórðar Þorbjarnarsonar borgarverkfræðings;
Sverrir, hagfræðingur og forstjóri Tryggingastofnunar ríkisins;
Guðrún, eiginkona Brodda Jóhannessonar, dr. phil og skólastjóra Kennaraskóla Íslands, og móðir Þorbjörns prófessors og Brodda fréttastjóra;
Björn, yfirlæknir við New York Hospital og prófessor við Cornell University Medical College í New York: og Kristín, eiginkona Guðmundar Ingva Sigurðssonar hrl.
Eiginmaður Arndísar var Marteinn Björnsson verkfræðingur og byggingarfulltrúi Suðurlands, f. 28. 2. 1913, d. 22. 10. 1999, sonur Björns Eysteinssonar á Orrastöðum í Austur-Húnavatnssýslu og Kristbjargar Pétursdóttur.
Börn Arndísar og Marteins eru;
Björn, f. 9.1. 1950, arkitekt og byggingarverkfræðingur hjá Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins;
Guðrún, f. 8.1. 1955, Ph.D, prófessor í fiskifræði við Háskóla Íslands.
Arndís lauk burtfararprófi frá Kvennaskólanum í Reykjavík 1927 og dvaldi hjá prófessor J.R. Tolkien í Oxford 1929-30.
Arndís starfaði hjá Fiskifélagi Íslands við söfnun aflaskýrslna og skýrslna um útflutning sjávarafurða 1933-49 og sinnti húsfreyjustörfum í Reykjavík 1949-59, en eftir það á Selfossi. Hún var formaður Æskulýðsráðs á Selfossi frá stofnun þess 1960-68, formaður Kvenfélags Selfoss 1970-78 og sat í hreppsnefnd Selfosshrepps 1962-74. Einnig var hún forseti og stofnandi Inner Wheel á Selfossi og umdæmisstjóri þess á Íslandi 1987-88.
Arndís Þorbjarnardóttir lést þann 16. apríl 2004.