MERKIR ÍSLENDINGAR – SONJA ZORILLA

Sonja Wendel Benjamínsson de Zorilla fæddist í Reykjavík þann 18. nóvember 1916.

 Foreldrar hennar voru hjónin María Emelie Wendel, f. á Þingeyri, 18.10. 1887, d. 23.11. 1981, og Ólafur Indriði Benjamínsson frá Marðareyri í Veiðileysufirði, f. 19.9. 1876, d. 8.10. 1936, stórkaupmaður í Reykjavík.

Sonja ólst upp í Reykjavík þar sem hún stundaði nám við Landakotsskóla. Hún hóf nám í Menntaskólanum í Reykjavík en hætti þar námi þegar hún veiktist af lömunarveiki 15 ára gömul. Árið 1932 fór hún á sjúkrahús í Danmörku og náði góðum bata.

Sonja dvaldi hjá frændfólki sínu í Wiesbaden í Þýskalandi við listnám, hún hélt til London og síðar til Parísar þar sem hún stundaði einnig nám í listgreinum og tungumálum. Þegar seinni heimsstyrjöldin braust út fór hún til Spánar og þaðan til Bandaríkjanna og settist að í New York. Sonja lagði stund á myndlist og tískuteikningu, einkum málaði hún andlitsmyndir. Verk hennar birtust meðal annars á forsíðu Vogue. Hún auðgaðist mjög á fjárfestingum á Wall Street.

Sonja giftist Victoriano Alberto Zorilla, f. í Búenos Aíres í Argentínu 6.4. 1906, d. í Flórída 23.4. 1986. Alberto var þjóðhetja í heimalandi sínu eftir að hann vann gullverðlaun í 400 metra skriðsundi á Ólympíuleikunum 1928. Sonja og Alberto bjuggu allan sinn búskap í New York-borg. Þar eignuðust þau fjölda vina sem settu svip sinn á borgina og öldina sem leið. Þau voru barnlaus.

Sonja fór frá Íslandi árið 1932 en kom einu sinni í heimsókn fyrir stríð. Hún kom ekki aftur fyrr en árið 1970 og dvöldu þau Alberto hér um lengri og skemmri tíma frá þeim tíma og byggðu sér bústað á Þingvöllum.

Enda þótt Sonja dveldi langdvölum fjarri fæðingarlandi sínu var hún alltaf mjög stolt af íslenskum uppruna sínum og flutti að lokum alfarið heim til Íslands.

Sonja Zorilla lést í Reykjavík þann 22. mars 2002.

Haustið 2002 kom út á vegum JPV útgáfu bókin; –  Sonja – Líf og  leyndardómar og lífssaga heimskonu á Manhattan -, ævisaga Sonju Wendel Benjamínsson de Zorrilla, sem skráð var af Reyni Traustasyni ritstjóra frá Flateyri.

Saga Sonju var skráð eftir frásögn hennar sjálfrar auk þess að höfundur vann upp úr bréfasafni hennar og ýmsum gögnum ásamt því að ræða við tugi vina hennar og samferðamanna á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Formálsorð eru skráð af vinkonu Sonju, Vigdísi Finnbogadóttur.

DEILA