Spurningar um grásleppuveiðar

Sigurjón Þórðarson þingmaður Flokks fólksins sem nú situr á þingi fyrir Eyjólf Ármannsson hefur lagt fyrir matvælaráðherra sjö spurningar varðandi grásleppuveiðar af því tilefni að kvótasetning grásleppu er fyrirhuguð.

Spurningarnar eru eftirfarandi og er óskað eftir að ráðherrann svari skriflega.

 1.      Hefur farið fram mat á áhrifum fyrirhugaðrar lagasetningar um kvótasetningu grásleppu á stöðu sjávarbyggða á vestan- og norðanverðu landinu sem margar hverjar eru brothættar?
     2.      Hefur komið til álita að Byggðastofnun framkvæmi slíkt mat?
     3.      Hefur verið metið hvort kvótasetning grásleppu kunni að stofna til bótaréttar þeirra sem eiga grásleppuleyfi og úthald en hafa ekki stundað veiðar á síðustu árum þar sem fyrirséð er að kvótasetning rýrir verðmæti netabáta, netaúthalda og leyfa?
     4.      Er þekkt samband á milli reiknaðs hrygningarstofns og nýliðunar? Ef svo er, hvert er það samband?
     5.      Er þekkt samband milli reiknaðs hrygningarstofns og afla á sóknareiningu? Ef svo er, hvert er það samband?
     6.      Er þekkt samband á milli vísitölu á magni grásleppu (hrygnu), rauðmaga (hængs) og hrognkelsa? Ef svo er, hvert er það samband?
     7.      Er markviss vinna í gangi innan Hafrannsóknastofnunar er miðar að því að stofnunin geti gefið ráðgjöf um heildarafla grásleppu með sama fyrirvara og varðandi flestar aðrar kvótabundnar tegundir, þ.e. um þremur mánuðum áður en hefðbundin grásleppuvertíð á að hefjast?

DEILA