Engin sýklalyf í innlendu laxeldi

Frantz og Collins í Silfrinu 19. mars sl.

Fram kemur í ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma fyrir árið 2022, sem er að finna á vef Matvælastofnunar, að að sýklalyf hafa aldrei verið notuð hjá þeim fyrirtækjum sem í dag stunda laxeldi í sjó á Vestfjörðum og Austfjörðum.

Haustið 2021 hafi hins vegar þurft að nota sýklalyf í í landeldi á bleikju og svo aftur á síðasta ári. Eru þetta einu tilvikin hér á landi þar sem sýklalyf hafa verið notuð síðasta áratuginn í fiskeldi hér á landi. Í laxeldinu, sem er langumsvifamest í eldinu, hefur ekki þurft að nota sýklalyf.

Mynd úr ársskýrslu dýralæknis fisksjúkdóma fyrir 2022.

Í Silfrinu á RUV á sunnudaginn var rætt við Frantz og Collins sem gerðu mikið úr sýklalyfjanotkun í Chile sem væri mikil í samanburði við Noreg. Sýklalyfjanotkun hefði vond áhrif á mannskepnuna og þol hennar fyrir sýklalyfjum segir í útdrætti RUV á því sem fram kom hjá þeim.

Það var hins vegar ekki minnst á hver staðan væri hér á landi hvað þetta varðar og stjórnandi þáttarins Egill Helgason spurði ekki. Spyrja má hvers vegna var ekki spurt úr því þetta er eitt af því sem skiptir miklu máli og leiðir til þess að banna eigi sjókvíaeldi á Íslandi að mati hjónanna Frantz og Collins.

Svarið blasir hér við. Það var ekki spurt vegna þess að svarið kollvarpar niðurstöðunni. Egill Helgason vildi ekki fá svarið fram. Atvinnugrein þar sem er engin sýklalyfjanotkun verður ekki bönnuð vegna sýklalyfjanotkunar. Svo einfalt er það.

Sýklalyfjanotkun í Chile er hins vegar mikil. Í ritrýndri grein í Aquaculture frá 15. mars 2020 kemur fram að á árunum 2014-2016 hafi um 35% af heimsframleiðslunni í sjókvíalaxi verið í Chile og þar hafi verið notað 96% af þeim sýklalyfjum sem notuð voru við framleiðsluna. Í Noregi hafi á þessum tíma verið framleiddur 53% af laxi í heiminum en aðeins notað 0,06% af sýklalyfjunum. Í Bandaríkjunum voru framleidd 0,8% af eldislaxinum á umræddi tímabili og við það notað 1,2% af sýklalyfjunum.

Í grein á IntraFish frá 10. maí 2021 kemur fram að Chilemenn notuðu árið 2020 hvorki meira né minna en 380 tonn af sýklalyfjum við framleiðslu á einni milljón tonna af laxi en Norðmenn framleiddu 1,5 milljón tonn af laxi og notuðu aðeins 200 kg af sýklalyfjum. Þarna er ólíku saman að jafna varðandi sýklalyfjanotkun og mikil afbökun á staðreyndum að nota Chile til þess að dæma laxeldi í Noregi, í Bandaríkjunum eða á Íslandi.

Frammistaða Ríkisútvarpsins í þessum þætti er hörmuleg svo ekki sé dýpra í árinni tekið.

-k

Tenglar á tilvitnaðar greinar:

https://www.intrafish.no/fiskehelse/antibiotika-brukt-pa-laks-i-chile-380-tonn-antibiotika-brukt-pa-laks-i-norge-230-kilo/2-1-1004084?fbclid=IwAR1og-J0njZnjHINbAQMJXBU_qGzTz6DLjCUhQfuUTSkKWs5rsKLA1cONtw

https://www.sciencedirect.com/science/article/pii/S0044848618327145?fbclid=IwAR1Ig5l22Fd53p0j34nnkB1o8_Cv9XaVilSzE3dtmfcvrF2dgxw_mcLzd-w

DEILA