Umhverfisstofnun hefur uppfært stefnu sína til ársins 2025. Hlutverk Umhverfisstofnunar er að þjónusta fólk og náttúru í þágu umhverfisverndar.
Í stefnumótunarvinnunni var leitast við að skerpa á markmiðum stofnunarinnar og samræma við stefnumótun ríkisaðila. Leitað var ábendinga hagaðila og fagráðuneytis.
Starfsfólk Umhverfisstofnunar tók virkan þátt í stefnumótuninni og miðlaði af sérþekkingu sinni og áhuga á umhverfisvernd.
„Við erum svo lánsöm að starfsfólkið okkar brennur fyrir umhverfisvernd og það myndaðist mikil og góð stemning í stefnuvinnunni. Aukinn árangur í loftslagsmálum brennur á samfélaginu og við viljum nýta okkar þekkingu og krafta sem allra best til að Ísland standi við skuldbindingar sínar. Ábyrg auðlindanýting í þágu náttúru og heilnæmi almennings skín vel í gegn í markmiðum okkar til næstu ára“ segir Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri.
Helstu áherslur í stefnunni eru:
- Loftslagsmál: Öflugur stuðningur við markmið Íslands í loftslagsmálum.
- Hringrásarhagkerfi: Efling hringrásarhagkerfis og hvata til grænna umskipta.
- Heilnæmi: Vernd lýðheilsu og vistkerfa á grunni traustra ganga
- Náttúruvernd: Vernd líffræðilegrar fjölbreytni og bætt upplifun á sérstöðu náttúrunnar.
Stefna Umhverfisstofnunar er sett upp eins og fjall. Framtíðarsýn Umhverfisstofnunar er efst á toppnum og byggir á því að virðing fyrir náttúrunni sé samofin allri ákvarðanatöku í samfélaginu.