Karlalið Vestra í blaki hefur tryggt sér sæti í úrslitaleik Kjörísbikarsins um helgina eftir að hafa unnið frækinn sigur á KA, 3:1, í undanúrslitum bikarkeppninnar í Digranesi í kvöld.
Fyrsta hrinuna vann KA naumlega, 26:24.
Í annari hrinu vann Vestri örugglega, 25:15.
Þriðja hrinan var æsispennandi í lokin en var KA sterkari aðilinn lengst af og komst í 13:7 en Vestri jafnaði metin í 18:18 KA komst aftur yfir en Vestri jafnaði aftur og vann svo hrinuna 27:25.
Í fjórðu hrinu byrjaði KA betur áður en Vestri sneri taflinu við og komst í 19:15. KA svaraði vel fyrir sig og jafnaði metin í 20:20. Vestri vann svo að lokum 25:23 og þar með leikinn 3:1.
Vestri mætir annað hvort ríkjandi bikarmeisturum Hamars eða Aftureldingu í úrslitaleiknum sem verður kl 13:00 á laugardaginn.