Verndarsjóður Villtra Laxastofna (NASF), íslenski Náttúruverndarsjóðurinn (IWF), Landssambandi veiðifélaga og Laxinn lifi vilja að sjókvíaeldi verði bannað við Ísland.
Jón Kaldal svarar því til fyrir hönd hópsins að eldisfyrirtækin geti „sótt um að vera með eldi í sjó þegar þau tryggja að enginn fiskur sleppi, að sjúkdómar og sníkjudýr berist ekki í aðliggjandi hafsvæði og hreinsi skólp með sama hætti og lög kveða á um við matvælaframleiðslu á landi.“
Þegar spurt er að því hvernig samtökin fjögur vilji að stjórnvöld hverfi frá laxeldi í sjó, svo sem með því að útgefin leyfi verði felld niður og hvort þá verði fjárfestingarkostnaður fyrirtækjanna endurgreiddur, t.d. við sláturhús, seiðaeldisstöðvar o.fl. fást ekki sameiginleg svör. Jón Kalddal svarar því til að „Við hjá Íslenska náttúruverndarsjóðnum höfum áður lagt til í umsögnum okkar til opinberra stofnanna að útgáfa nýrra leyfa verði stöðvuð og sjókvíaeldi í opnum netapokum aflagt í áföngum. Hvernig staðið verður að því er úrlausnarefni milli stjórnvalda og viðkomandi fyrirtækja.“ Frá hinum samtökunum þremur bárust engin svör.
Skaðabótaskylda ríkisins
Eldisfyrirtæki hafa gild leyfi til allt að 16 árum til sjókvíaeldis fyrir ákveðnu magni á ákveðnum svæðum. Þá eru möguleikar á endurnýjun leyfanna. Eigi að fella þau úr gildi áður en gildistíminn rennur út vakna spurningar um skaðabótaábyrgð ríkisins þar sem forsendur tugmilljarða króna fjárfestinga yrðu þá brostnar. Ólíklegt verður að teljast að ríkið leggði í slíka vegferð. Verði ekki hróflað við útgefnum leyfum verður sjókvíaeldið stundað í allt að 16 ár til viðbótar.
Þá er næst að athuga hvort ríkið gæti hætt við bótalaust að úthluta nýjum leyfum í þeim tilvikum sem umsóknarferli er langt komið eða jafnvel lokið og ný leyfi tilbúin eins og er tilfellið í Ísafjarðardjúpi. Í þeim tilvikum hafa eldisfyrirtækin árum saman unnið að því að fá leyfi og stofnað til kostnaðar til undirbúnings nýju eldi þar sem þau hafa hafa réttmætar væntingar til þess að fá leyfi. Yrði alveg hætt við að veita leyfi stæði ríkið frekar höllum fæti gagnvart kröfum um skaðabætur en hversu miklar þær gætu orðið er óljósara en þar skiptir máli fjárhagslegar skuldbindingar sem fyrirtækin hafa þegar lagt út í og réttmætar væntingar um ábata af fjárfestingunni. Loks þarf að gaumgæfa hverjar réttmætar væntingar eldsfyrirtækin hafa til þess að fá ný leyfi að útrunnum þeim sem í gildi eru. Það getur gerst annars vegar með framlengingu til sama eldisfyrirtækis eða með útboði og samkeppni milli fyrirtækjanna um nýtt leyfi. Löggjöfin gerir ráð fyrir þessum möguleikum og þar með áframhaldandi leyfisveitingu. Uppbygging sjókvíaeldis í dag er byggð á þessari forsendu laganna og því réttmætt að fyrirtækin getið hugsað fjárfestingu til lengri tíma en 16 ára. Að hætta sjókvíaeldinu yrði því stefnubreyting sem tekin yrði með nýrri löggjöf og því alls ekki útilokað að það myndi stofnast til skaðabótaskyldu ríkisins a.m.k. í einhverjum tilvikum.
Það má minna á að eitt eldisfyrirtækið á Vestfjörðum er að fjárfesta í seiðaeldisstöð fyrir nærri 4 milljarða króna og laxasláturhúsi fyrir svipaða upphæð til viðbótar. Ef framleiðsluleyfin yrðu felld niður strax kemur væntanlega strax fram krafan á ríkið um að bæta fyrirtækinu fjárfestinguna sem mun þá ekki skila neinum tekjum.
150 milljarða króna tjón
Í þriðja lagi kæmi til skoðunar tjón byggðarlaganna af því að hætta við sjókvíaeldi. Störf sem hafa orðið til hyrfu og störf sem annars hefðu orðið til koma ekki. Af því tapast tekjur í sveitarfélögunum. Fasteignaverð sem hefur farið hækkandi með vaxandi fiskeldi myndi væntanlega lækka að nýju. Af þeim sökum verða íbúarnir fyrir fjárhagslegu tjóni.
Loks má svo nefnda þjóðhagsleg áhrif af því að hætta við sjókvíaeldið. Útflutningstekjurnar í fyrra af fiskeldinu, sem nær eingöngu er laxeldi í sjókvíum, voru um 45 milljarðar króna. Í skýrslu Boston Consulting Group er talin líklegasta sviðsmyndin að innan 10 ára, árið 2032, verði framleiðslan 146 þúsund tonn vegna sjókvíaeldis, söluverðmætið verði um 150 milljarðar króna. Það myndi kosta 150 milljarða króna í töpuðum útflutningstekjum að banna sjókvíaeldi. Og auk þess tapast 60 – 70% af 7000 störfum sem Boston skýrslan telur líklegast að verði til af lagareldi og samsvarandi hlutfall myndi tapast af 47 milljörðum króna í skatta og gjöld af eldinu.
Landeldið er þá áætlað um 75.000 tonn en það er mun meiri óvissu háð en sjókvíaeldið sem hefur þegar tekist vel og er komið á legg. Landeldið er hvergi í heiminum í þeim mæli sem ráðgert er hér á landi og ekki því við neina reynslu að styðjast. En landeldið getur tekist vel hvort sem sjókvíaeldið verður bannað eða áfram leyft. Með öðrum orðum landeldið kemur ekki í staðinn fyrir sjókvíaeldið, það getur hins vegar verið viðbót við verðmætasköpunina sem stendur undir bættum lífskjörum almennings.
Stangveiðin – engar upplýsingar um tekjur
Þeir sem harðast berjast gegn sjókvíaeldinu eru aðilar sem fjárfest hafa í veiðiréttindum í laxveiðiám. Þeir óttast að eldislaxinn spilli villta laxinum sem stangveiðimenn veiða. En hverjar eru umsvifin af stangveiðinni? Að því hefur verið spurt og leitað bæði til fjármálaráðuneytisins og Hagstofu Íslands. Svörin sem að lokum hafa fengist eru þau að upplýsingar liggja ekki fyrir, hvort sem það varðar tekjur af stangveiðinni eða hagnaður af henni. Í flestum tilvikum eru veiðifélög um árnar og þau eru almennt ekki sjálfstæður skattaðili og skila ekki ársreikningum til hins opinbera.
Til dæmi gefa veiðifélögin í Ísafjarðardjúpi um Laugardalsá og Langadalsá ekki upp tekjur sínar. En eftir því sem næst verður komist eru tekjurnar fáir tugir milljóna króna á ári og engin störf skráð við nýtingu ánna og það sem er athyglisverðast að allar jarðirnar nema ein eru í eyði og enginn sem býr á þeim. Veiðiréttindin eru sem sé ekki að viðhalda neinni byggð.
Þessir fjórir aðilar sem krefjast þess að sjókvíaeldið verði bannað gera kröfu um að fórna árlega ca 85 milljarða króna útflutningstekjum sem núverandi burðarþolsmat á Vestfjörðum gerir kleift að framleiða. Stangveiðin gefur Vestfirðingum svo gott sem ekkert. Laxastofnarnir í Djúpinu eru í lítilli hættu fyrir erfðablöndun. Því er eðlilegt að spyrja að hverjir þessir hagsmunir eru sem eru svo mikilvægir að þeir ryðja öllu öðru til hliðar og stórskaða almenning. Hvernig væri að þeir sem leigja laxveiðiárnir í Djúpinu gefi upp tekjur sínar og útgjöld og upplýsi Vestfirðinga um störfin sem stangveiði skapar og tekjurnar sem verða til í sveitarfélögunum svo hægt verði að bera saman þessa tvo kosti , stangveiðina og sjókvíaeldið.