Siglingaklúbburinn Sæfari á Ísafirði var á dögunum færðir tveir nýir kajak bátar. Rörás, pípulagningafyrritæki, gaf bátana. „Þeir tóku sig til því við erum með aðstöðuna okkar beint fyrir framan gluggann hjá þeim og höfðu orð á því að þeir yrðu að gera eitthvað því það væri svo gaman að hafa starfið okkar hérna,“ segir Torfi Einarsson hjá Sæfara.
Bátarnir sem Sæfari fékk gefins eru svokallaðir „sit on top“ eða yfirsetnir kajakbátar, þetta eru breiðir og stöðugir kajakar sem eru mikið notaðir til veiða.
„Rörás ákvað sem sagt að gefa okkur þessa tvo splunkunýju báta á gamlársdag. Þetta er skemmtileg viðbót við þá báta sem við eigum. Þetta eru mjög stöðugir kajakar, sem venjulega eru notaðir mikið til skotveiða, sem við munum nú ekki gera, en krakkarnir geta farið og danglað með veiðistöng á námskeiðum sínum í sumar,“ segir Torfi.
„Maður þakkar auðvitað þessum fyrirtækjum fyrir, flest fyrirtæki hérna sýna okkur rosalegan velvilja og styrkja okkur,“ bætir Torfi við.