Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, staðfesti í dag tillögur svæðisráða að Strandsvæðisskipulagi Austfjarða og Strandsvæðisskipulagi Vestfjarða. Þetta eru tímamót í skipulagssögu landsins þar um er að ræða fyrsta skipulag sem tekur til fjarða og flóa við strendur landsins. Skipulagið öðlast gildi þegar það hefur verið birt í B-deild Stjórnartíðinda.
Svæðisráðin sem hafa unnið að tillögunum eru skipuð fulltrúum sveitarfélaga á svæðunum, fulltrúa Samband íslenskra sveitarfélaga ásamt fulltrúum þriggja ráðuneyta. Strandsvæðisskipulag tekur til afmarkaðra svæða á fjörðum og flóum utan staðamarka sveitarfélaga. Þar er sett fram stefna og ákvarðanir stjórnvalda um hvernig framtíðarnýtingu og vernd svæðisins verður háttað. Skipulagið leggur þannig grunn að framkvæmdum og annarri starfsemi á skipulagssvæðunum.
„Ég fagna þeim áfanga að strandsvæðisskipulag hefur verið staðfest hvort tveggja fyrir Austfirði og Vestfirði. Með þessu er lagður grunnur að nýtingu og vernd fyrir svæðin sem býr til ákveðinn fyrirsjáanleika og leiðbeiningar um nýtingu og vernd þeirra. Líkt og við skipulagsgerð á landi þarf jafnan að huga að fjölbreyttum hagsmunum íbúa, atvinnuvega, siglinga og fjarskipta og tryggja skynsamlegt jafnvægi milli nýtingar og verndunar. Við erum nú að taka fyrstu skrefin varðandi strandsvæðisskipulag en rétt er að taka fram að vinna við áhættumat siglinga stendur enn yfir á tilteknum svæðum,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra.