Matvælaráðuneytið: efast ekki um niðurstöðu héraðssaksóknara

Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra var þá heilbrigðisráðherra.

Matvælaráðuneytið segir að það telji sig ekki bært til að efast um niðurstöðu héraðssaksóknara í máli skrifstofustjóra í Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, enda sé hann sá aðili sem fer með slík mál lögum samkvæmt. Þetta kemur fram í svari við fyrirspurn Bæjarins besta um það hvers vegna ráðuneytið hafi ekki áfrýjað niðurstöðu héraðssaksóknara til ríkissaksóknara.

Beindi ráðuneytið á árinu 2020, en þá var Kristján Þór Júlíusson ráðherra málaflokksins, erindi til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu „til að meta hvort skilyrði væru til að taka embættisfærslur sem rætt er um í tilvitnuðu bréfi héraðssaksóknara til rannsóknar með vísan til XIV. kafla almennra hegningarlaga“. Um var að ræða beiðni skrifstofustjórans um seinkun á birtingu laga um fiskeldi sumarið 2019. Rannsókn fór fram og héraðssaksóknari komst að þeirri niðurstöðu tveimur árum seinna, í september 2022, að fella málið niður með þeim ummælum að „ekki hafa verið sýnt fram á að þér hafið misnotað stöðu yðar öðrum eða yður sjálfum til ávinnings. Þá fæst ekki séð að athafnir yðar hafi hallað réttindum einstakra manna eða lögaðila né hins opinbera, sbr. m.a. framangreint minnisblað.“ Ráðuneytið hafði mánuð til þess að áfrýja niðurstöðu héraðssaksóknara en áfrýjaði ekki.

Ráðuneytið lét Ríkisendurskoðanda hafa bréf héraðssaksóknara

Þá var ráðuneytið innt eftir því hvort það hefði farið fram á að kaflinn í skýrslu Ríkisendurskoðanda um skrifstofustjórann yrði felldur út úr drögum í ljósi niðurstöðu rannsóknarinnar. Í svari Matvælaráðuneytisins segir að ráðuneytið hafi fengið umrædd skýrsludrög til umsagnar í samræmi við verklagsreglur Ríkisendurskoðunar :

„Tilgangurinn með slíkri umsögn er tvíþættur, annars vegar að bregðast við gagnrýni eða ábendingum með formlegum hætti og hins vegar að koma með ábendingar ef athugasemdir eru við efnistök. Í leiðbeiningunum segir enn fremur: „Yfirlestur hagaðila á úttektargögnum þjónar þeim tilgangi að tryggja að túlkun upplýsinga og gagna sé rétt“.

Ráðuneytið lét Ríkisendurskoðun í té gögn tengd málinu, m.a. bréf héraðssaksóknara til ráðuneytisins. Það er ekki hlutverk ráðuneytisins í yfirlestrinum að hafa áhrif á efnistök Ríkisendurskoðunar enda er stofnunin sjálfstæð í sinni vinnu sem unnin er í umboði Alþingis.“

DEILA