Þau gleðilegu tíðindi bárust í vikunni að átakið Íslenskuvænt samfélag: við erum öll almannakennarar hafi hlotið styrk úr Þróunarsjóði innflytjendamála. Styrkurinn gerir þeim sem að átakinu standa ekki bara kleift að halda áfram því góða starfi sem unnið var á síðasta ári heldur einnig að bæta um betur, auka og þétta dagskrá ársins 2023.
Eftir fund hluteigandi aðila, sem haldinn var 14.2., var ákveðið að notast við nýtt slagorð: GEFUM ÍSLENSKU SÉNS. Verða því viðburðir átaksins héðan í frá kynntir undir þeim formerkjum á eftirfarandi máta:
GEFUM ÍSLENSKU SÉNS!
ÍSLENSKUVÆNT SAMFÉLAG
Nýju nafngiftinni er ætlað að brýna enn betur fyrir fólki að leitast við að gefa öllum tækifæri til að nota þá íslensku sem hentar hverju sinni, svo og að gefa fólki sem lærir málið tíma sinn og athygli án þess að vera með umvandanir. Skal því æ kappkostað að nota íslensku og miða málsnið við hæfni viðmælandans enda er deginum ljósara að íslenska árið 2023 er allskonar.
Markmiðið er því, í sem fæstum orðum, stuðla að auknum möguleikum fólks í notkun íslensku á sem víðtækastan og fjölbreyttastan hátt, að þeir sem læra málið, sama hvar á vegi þeir eru staddir, fái stuðning og skilning þeirra sem hafa vald á íslensku. Átakið snýst því mikið til um vitundarvakningu, hvað felst í því að læra málið, hvernig við sem samfélag getum stuðlað að framförum fólks í íslensku, að fólk hafi tækifæri til að nota málið við sem flest tækifæri.
Í fyrra um svipað leyti hittist hópur fólks og vann að hugmyndavinnu og skipulagningu þeirra viðburða sem áttu sér stað. Í ár verður einnig hafður sá háttur og er hér með óskað eftir áhugasömum til að koma að viðburðadagatali.
Öllum er velkomið að ganga til liðs við hópinn. Hafir þú áhuga á að vinna íslensku brautargengi og stuðla að íslenskuvænu samfélagi settu þig þá endilega í samband í gegnum islenska(hjá)uw.is. Verkefnið verður án efa gefandi og skemmtilegt. Nánari upplýsingar um verkefnið má og fá í gegnum áðurnefnt netfang eða símleiðis með því að tala við Ólaf Guðstein í síma 8920799.
Með íslenskuvænum kveðjum,
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson
-Hér eru nokkrir hlekkir teknir af handahófi til frekari glöggvunar: