Mun Ísafjarðarbær leiða velferðarþjónustu á Vestfjörðum ?

Niðurstöður starfshóps um aukið samstarf í velferðarþjónustu á Vestfjörðum voru kynntar sveitarstjórnum á Vestfjörðum fimmtudaginn 9. febrúar síðastliðinn.

Starfshópurinn var skipaður í kjölfar 67. Fjórðungsþings Vestfirðinga sem haldið var í september 2022 og var markmiðið að kanna grundvöll fyrir og eftir atvikum setja á fót Velferðarþjónustu Vestfirðinga, sem sinni þjónustu við fatlað fólk, barnaverndarþjónustu og samræma móttöku flóttafólks.

Ástæða vinnunnar var meðal annars ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna og veigamiklar breytingar á barnaverndarlögum og lögum um lágmarksíbúafjölda á þjónustusvæðum í málefnum fatlaðs fólks.

Í niðurstöðunum kemur meðal annars fram að þar sem á svæðinu eru níu sveitarfélög með mikla dreifni í íbúafjölda og mismunandi hagsmuni og sjónarmið sé ekki auðvelt að finna leið sem hentar öllum. Vestfirðir skiptast í fjögur félagsþjónustusvæði og eru með byggðasamlag í málefnum fatlaðs fólks. Þyngd þjónustu í málefnum fatlaðs fólks og barnavernd er mjög mismunandi eftir sveitarfélögum og þar með einnig útgjöldin til málaflokkanna. Heildarútgjöld á árinu 2021 voru um 782 m.kr. 

Starfshópurinn hélt vinnustofur í desember og janúar þar sem núverandi staða og framtíðarskipan þjónustunnar, með mismunandi útfæslum samstarfs sveitarfélaganna voru teknar fyrir. 

Tvær tillögur að samstarfi eru kynntar í niðurstöðum starfshópsins; byggðasamlag um velferðarþjónustu á Vestfjörðum og samstarfsforms sem gengur undir nafninu leiðandi sveitarfélag, sem byggir á 96. gr. sveitarstjórnarlaga þar sem fjallað er um samninga þar sem eitt sveitarfélag tekur að sér verkefni fyrir önnur sveitarfélög. Starfshópurinn leggur til í niðurstöðum sínum að seinni leiðin um leiðandi sveitarfélag verði valin. Samkvæmt henni verði Ísafjarðarbær leiðandi sveitarfélag og taki að sér rekstur málefna fatlaðs fólks og barnaverndarþjónustu fyrir hönd sveitarfélaganna á Vestfjörðum. Í þessu fyrirkomulagi verði lögð áhersla á gagnsæi í veittri þjónustu og reikningagerð. Einnig að skipuð verði fulltrúaráð með fulltrúum allra þátttökusveitarfélaga, og framkvæmdaráð með fulltrúum frá hverju þjónustusvæði, auk bæjarstjóra og fjármálastjóra Ísafjarðarbæjar.

Lagt er til að næstu skref verði að þróa samstarfið í þrepum og meta jafnóðum þá reynslu. Fyrsta skrefið er að Ísafjarðarbær verði leiðandi sveitarfélag en samráð við hin sveitarfélögin verði tryggt. Samningurinn verði endurskoðaður með aðkomu fulltrúaráðs að ári liðnu og þá metið hvernig fyrirkomulagið hafi reynst, m.a. út frá faglegri þjónustu og rekstri. Þá verði einnig skoðað hvort þörf sé á breytingum á félagaformi. 

Tillagan fer nú til afgreiðslu í öllum sveitarstjórnum á Vestfjörðum.

Kynning á niðurstöðum í heild

Starfshópinn skipuðu:

  • Arna Lára Jónsdóttir, frá Ísafjarðarbæ
  • Bragi Þór Thoroddsen, frá Súðavíkurhreppi
  • Delphine Briois, frá Árneshreppi
  • Hildur Aradóttir, frá Kaldrananeshreppi
  • Hlíf Hrólfsdóttir, frá Strandabyggð
  • Hrefna Jónsdóttir, frá Reykhólahreppi
  • Jóhann Örn Hreiðarsson, frá Tálknafjarðarhreppi
  • Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir, frá Bolungarvíkurkaupstað
  • Svanhvít Sjöfn Skjaldardóttir, frá Vesturbyggð
DEILA