Bæjarráð tók fyrir á fundi sínum í gær erindi frá Arnarlax um aðkomu Ísafjarðarbæjar að gerð hafnaraðstöðu við Mjólká í Borgarfirði sem er innfjörður af Arnarfirði. Bókað er að miðað við þær forsendur sem liggja fyrir í málinu sér bæjarráð ekki að Ísafjarðarbæ sé fært að taka þátt í verkefninu að svo stöddu.
Fram kemur að verkefnið hljóti ekki fjármögnun frá Vegagerðinni að óbreyttu og að tekjur yrðu ekki nægar til að standa undir fjárfestingunni.
Bæjarráð áréttar að bryggjan er ekki í eigu Ísafjarðarbæjar.
Fram var lagt minnisblað hafnarstjóra um málið, dags. 24. janúar 2023 en það hefur ekki verið birt.
Uppfært kl 12.54. Bæjarins besta hefur fengið minnisblaðið afhent en kostnaðaráætlun og afstöðumynd af verkinu var undanskilin. Í minnisblaðinu kemur fram að hafnaraðstaðan við Mjólká er ekki innan svæða sem er skilgreint hafnarsvæði samkvæmt hafnareglugerð Ísafjarðarbæjar og verkið því ekki styrkhæft samkv upplýsingum frá Vegagerðinni. Hins vegar sé hægt að sækja i ferjubryggjusjóð. Hafnarstjóri segir það sitt mat að ef Hafnir Ísafjarðarbæjar eigi að koma að þessu verkefni þurfi að breyta skilgreiningu hafna í hafnareglugerð og leggja fyrir bæjarráð hvort vilji sé til þess.