Ísafjarðarbær: 10 ára samningur um leigu á Félagsheimilinu á Suðureyri

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti á fimmtudaginn samhljóða samning um rekstur Félagsheimilis Súgfirðinga á Suðureyri milli Ísafjarðarbæjar annars vegar og Hollvinasamtaka Félagsheimilis Súgfirðinga, kvenfélagsins Ársólar og íþróttafélagsins Stefnis hins vegar. Samingurinn er til 10 ára og rennur út í lok árs 2032.

Segir í 1. grein samningsins að hann sé um rekstur félagsheimilisins, með það að markmiði að efla og auka félagsstarf og menningarlíf í Súgandafirði og styrkja rekstur, viðhald og uppbyggingu félagsheimilisins.

Hollvinasamtökin, Hofsú, skulu sjá um rekstur fasteignarinnar, stjórnun og utanumhald viðburða, útleigu hússins og
minniháttar viðhald, og sorpgjald fyrir eigin reikning. Allur rekstrarafgangur skal renna óskiptur til viðhalds og endurbóta á húsinu.

Ísafjarðarbær skal greiða orkukaup vegna fasteignarinnar, þ.e. rafmagn og hita. Þá skal Ísafjarðarbær greiða millifærða leigu til Eignasjóðs og sameiginlegan kostnað, fasteignaskatt, lóðarleigu, vatnsgjald, fráveitugjöld eignarinnar, tryggingar og önnur opinber gjöld sem lögð eru á húsið.

Í samningnum er tiltekið að árið 2021 hafi þessi kostnaður numið 12,2 m.kr.

Kvenfélagið Ársól og Íþróttafélagið Stefnir skulu leggja til vinnu við viðhald og rekstur hússins eftir þörfum og mati Hofsú hverju sinni eins og verið hefur fram að þessu.

Samningurinn er uppsegjanlegur með þriggja mánaða fyrirvara.

DEILA