Áform um stækkun Mjólkárvirkjunar samþykkt í Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar

Mjólkárvirkjun

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar samþykkti þann 19. janúar 2023 að skipulagslýsing vegna áforma um stækkun Mjólkárvirkjunar og afhendingu grænnar orku, verði kynnt opinberlega skv. skipulagslögum 123/2010. Matslýsingin verði tekin til meðferðar í samræmi við VII. og VIII. kafla skipulagslaga nr. 123/2010 og er unnin í samræmi við lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021.

Markmið aðalskipulagsbreytingarinnar eru eftirfarandi: 

  • Að heimila aukna nýtingu vatnsafls á vatnasviði Mjólkár og þar með auka raforkuframleiðslu Mjólkárvirkjunar og bæta afhendingar-öryggi raforku á Vestfjörðum.
  • Að skapa aðstöðu fyrir afgreiðslu og framleiðslu á endurnýjanlegu eldsneyti við Mjólkárvirkjun.
  • Að skapa betri aðstöðu fyrir báta við ferjubryggju í Arnarfirði.

Fyrirhugað er að hækka stíflu við Tangavatn um þrjá metra og auka þannig miðlunargetu þess. Einnig á að virkja afrennsli vatnsins með allt að 0,5 MW virkjun við Hólmavatn. Hólmavatn er nú þegar nýtt sem uppistöðulón og
stíflan er tilgreind á gildandi aðalskipulagi. Lögð verður um 600 m löng niðurgrafin þrýstipípa frá Tangavatni og að fyrirhuguðu stöðvarhúsi við Hólmavatn. Virkjað rennsli verður allt að 1,1 m3 /s. Með framkvæmdinni næst betri nýting á vatnasviði Mjólkár án mikilla umhverfisáhrifa.
Núverandi stífla við Tangavatn er með 60 m löngu steyptu yfirfalli en lengd stíflu, með lausu efni, er um 100 m. Eftir breytingu verður yfirfallið um 80 m langt og lengd stíflu um 230 m. Miðlunarrýmd eykst úr 1,45 Gl í 2,60 Gl og mesta flatarmál lónsins fer úr 0,35 km² í 0,40 km2 .

Notast verður við þann aðkomuveg sem þegar er til staðar og liggur að stíflustæðinu en leggja þarf um 600-800 m langan veg að fyrirhuguðu stöðvarhúsi við Hólmavatn.
Samtals þarf um 11.000 m3 af efni í stífluna og er ráðgert að taka efnið nálægt framkvæmdasvæðinu. Leggja þarf um 5 km langan rafstreng frá hálendisbrúninni að inntaki Mjólkárvirkjunar III.

DEILA