Skipulagsstofnun: ásætuvarnir í Arnarfirði í umhverfismat

Skipulagsstofnun hefur ákveðið að áform Arctic Fish um noktun ásætuvarna í Arnarfirði sem innihalda koparoxíð verði að fara í sérstakt umhverfismat.

Arctic Sea Farm er með leyfi fyrir 4000 tonna laxeldi í Arnarfirði. Leyfin eru bundin við þrjú svæði; Lækjarbót, Hvestudal og Trostansfjörð.

Í eldinu hafa ásætur sem setjast á eldiskvíarnar verið fjarlægðar með reglulegum háþrýstiþvotti á eldisnótum með tilheyrandi álagi á netin sem slitna fljótar og eykur það líkur á slysasleppingum auk þessi sem þvotturinn hefur streituvaldandi áhrif á eldisfiska.

Með notkun ásætuvarna sem innihalda koparoxíð verður einungis þörf á þvotti nóta í sjó með lágþrýstingi á 8-12 mánaða fresti en nætur án koparoxíðhúðunar þarf að þvo á 6 vikna fresti samkvæmt því sem fram kemur í rökstuðningi fyrirtækisins. Þegar eldislotu lýkur (eftir slátrun kynslóðar) verði nætur þrifnar í landi og litaðar aftur með koparoxíð fyrir næstu notkun.

Í greinargerð Arctic Fish segir að ef svo fari að kopar sem safnist upp í botnseti fari yfir viðmiðunarmörk sem lýst verði í vöktunaráætlun og rekja megi það til notkunar á ásætuvörn sem inniheldur kopar muni framkvæmdaraðili grípa til mótvægisaðgerða sem felist í ýmist að lengja hvíldartíma, færa kvíastæði innan eldissvæðis, fækka útsettum seiðum eða hætta notkun eldissvæðisins.

Hafrannsóknarstofnun hafði ýmislegt við áformin að athuga og taldi að skoða hefði mátt valkosti á annarri tegund ásætuvarna s.s. sílikonhúðuð net. Segir stofnunin að allt bendi til þess að kopar sé skaðlegur umhverfinu. Umhverfisstofnun var mun jákvæðari og taldi áhrif kopars ekki verða umtalsverð á notkunarsvæðinu þar sem nótapokarnir verði þvegnir í þvottastöð á landi og gera megi ráð fyrir að mest af koparnum falli til þar.

Að mati Skipulagsstofnunar er óvissa um áhrif notkunar ásætuvarna á kalkþörunga í Trostansfirði. Kalkþörunga er ekki að finna undir eldissvæðinu sjálfu en straumar eru flóknir í innfjörðum Arnarfjarðar og ekki liggur fyrir hver möguleg áhrif styrks kopars á uppleystu formi í Trostansfirði hefur á búsvæði kalkþörunganna.

Þá segir Skipulagsstofnun að mælingar á styrk kopars á tveimur eldissvæðum Arnarlax í Arnarfirði við Haganes og Tjaldanes sýni meiri uppsöfnun en áður var talið og því sé hætta á skaðlegri uppsöfnun kopars.

Hissa

Daníel Jakobsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Arctic Fish sagði að farið yrði í að framkvæma umbeðið umhverfismat. Hins vegar væri því ekki að leyna að menn væru hissa á þessari ákvörðun Skipulagsstofnunar og klóruðu sér í höfðinu. Ásætuvarnir hefðu verið leyfðar án sérstaks umhverfismats og það væri spurning hvernig ætti að framkvæma þetta sérstaka mat. Um væri að ræða eitt efni en umhverfismat væri margþætt áhrif á umhverfi af tiltekinni framkvæmd.

DEILA