Hólmfríður Sigurðardóttir fæddist 9. janúar 1617 og var prófastsfrú í Vatnsfirði við Ísafjarðardjúp.
Foreldrar hennar voru Sigurður Oddsson í Hróarsholti í Flóa, sonur Odds biskups Einarssonar, og kona hans Þórunn ríka Jónsdóttir, f. 1594, d. 1673. Sigurður drukknaði sama ár og Hólmfríður fæddist en móðir hennar giftist aftur Magnúsi Arasyni sýslumanni á Reykhólum og ólst Hólmfríður þar upp.
Hólmfríður giftist 1636 Jóni Arasyni prófasti í Vatnsfirði, sem var yngri bróðir Magnúsar stjúpföður hennar, og bjuggu þau í Vatnsfirði þar til Jón lést árið 1673. Þá flutti hún í Hóla í Hjaltadal til Ragnheiðar dóttur sinnar sem var biskupsfrú og síðar í Laufás til Helgu dóttur sinnar. Hólmfríður og Jón áttu níu börn.
Málverkið hér að ofan af Hólmfríði er eftir séra Jón Guðmundsson á Felli í Sléttuhlíð. Útskorni ramminn er eftir Illuga Jónsson í Nesi í Höfðahverfi. Talið er að Helga hafi látið mála málverkið í minningu móður sinnar.
Hólmfríður lést 25. apríl 1692.
Morgunblaðið laugardaginn 9. janúar 2021.