Bæjarráð Bolungarvíkur mótmælir harðlega ákvörðun Sýslumannsins á Vestfjörðum um að flytja starfsemi embættisins frá Bolungarvík.
Í reglugerð um umdæmi sýslumanna er kveðið á um að útibú skuli vera frá Sýslumanninum á Vestfjörðum í Bolungarvík og á Hólmavík, sýsluskrifstofa á Ísafirði en aðalskrifstofa embættisins á Patrekfriði. Í fréttatilkynningu frá Jónasi Guðmundssyni sýslumanni kom fram að embættið hefur ritað dómsmálaráðherra bréf þar sem óskað er eftir að reglugerðinni verði breytt þannig að aðeins sé gert ráð fyrir einni starfsstöð á norðanverðum Vestfjörðum og lagt til að hún verði á Ísafirði.
Í bókun bæjarráðs segir að þessi ósk sýslumanns sé fordæmalaus og með henni ætli embættið að fá leyi ráðherra til að hætta alfarið þjónustu við íbúa í Bolungarvík.
„Með þessu er meðal annars verið að leggja niður þjónustu Tryggingarstofnunar, en þeir sem nýta sér þjónustuna hennar eru fyrst og fremst eldri borgara og öryrkjar sem treysta á góða og öfluga þjónustu í heimabyggð,“ segir í bókuninni.
Bæjarráð segir þessa ákvörðun Sýslumannsins á Vestfjörðum vera svik við nýlega þjónustumiðstöð í Bolungarvík. Í bókuninni segir: „Góð sátt var um þjónustumiðstöðina sem sett var á laggirnar sumarið 2016 eftir að mikil áföll dundu á opinberri þjónustu í Bolungarvík með fyrirhugaðri lokun á póst- og bankaþjónustu ásamt því að sýslumannsembættið í Bolungarvík var lagt niður stuttu áður. Það er ótrúleg staðreynd að aðeins nokkrum mánuðum eftir að sýslumannsembættið á Vestfjörðum tók þátt í að opna þjónustumiðstöðina með pompi og prakt skuli embættinu hafa snúist hugur og kjósa að loka útibúinu.“
Í fyrrnefndri fréttatilkynningu er það lokun skrifstofunnar hörmuð „en eilífar kröfur um hagræðingu kalli á þessa aðgerð, sem auk fjárhagslegs sparnaðar ætti að leiða til aukinna samlegðaráhrifa á skrifstofunni á Ísafirði,“ eins og það er orðað.
Bæjarráð hafnar algjörlega þeim rökum sýslumanns að þessi aðgerð sé nauðsynleg til að draga úr kostnaði. Húsnæðið í Bolungarvík er sagt eitt hagkvæmasta skrifstofuhúsnæði á landinu og henti vel til starfseminnar hér í Bolungarvík.
„Það er óásættanlegt að íbúar Bolungarvíkur skulu einir bera kostnað af framúrkeyslu embættisins og er í algjöru ósamræmi við fyrri yfirlýsingar embættisins og ráðherra þegar breytingar voru gerðar á sýslumannsembættunum á landinu. En fram kom hjá innanríkisráðherra þegar Sýslumannsembættið á Vestfjörðum var stofnað að „embættin verða í kjölfar breytinganna öflugri og betur í stakk búin til að taka við verkefnum og tækifæri skapast til að flytja verkefni úr miðlægri stjórnsýslu til þeirra“.