Drangsnes: 101 milljón króna framkvæmdir á árinu

Drangsnes. Mynd: Sturla Páll Sturluson.

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps afgreiddi í desember 2022 fjárhagsáætlun fyrir 2023. Niðurstaða af rekstri A hluta verður 4,6 m.kr. áætlað handbært fé í lok ársins verða 40 m.kr. Gjaldskrár hækka um 6% nema fyrir sorphirðu og fráveitu en þar er hækkunin 10%. Fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði og útihús er 0,5%, 1,32% af opinberum byggingum og 1,4% af öðru húsnæði. Elli- og örorkulífeyrisþegar með lögheimili og búsetu í Kaldrananeshreppi njóta 75% afsláttar af fasteignaskatti ef árstekjur fara ekki yfir 4.500.000 kr.- hjá einstaklingi og 6.400.000 kr.- hjá hjónum samkvæmt nýjasta skattframtali. Þar með talið eignir og fjármagnstekjur.

Finnur Ólafsson, oddviti var inntur eftir upplýsingum um fyrirhugaðar framkvæmdir ársins sem eru upp á 101 milljónir króna.

Þar eru efstar á blaði framkvæmdir við heitavatnsborholu á Drangsnesi. Það þarf meira vatn og eru settar 30 m.kr. til þess að afla þess.

Einnig fara 30 m.kr. til iðngarða og húsnæðis fyrir björgunarmiðstöð á Drangsnesi. Unnið verður að forhönnun, skipulagi og jarðvinnu.

Til byggingar smáhýsa sem íbúðarhúsnæðis verður varið 20 m.kr. Að sögn Finns er áhugi á þessu fyrirkomulagi og verður byrjað á því að kannað nánar. Í gatnagerð eru settar 10 m.kr. og einnig 10 m.kr. til þess að standsetja sumarhúsahverfi að Klúku í Bjarnarfirði. Þar mun sveitarfélagið leigja lóðir og sagði Finnur að þegar væru leigaðr 4 lóðir. Einkum eru það aðilar búsettir utan svæðis en með rætur í sveitarfélaginu sem hafa sýnt áhuga.

DEILA