Í gær voru níundu körfuboltabúðir Vestra settar. Lengst af voru búiðirnar haldnar undir merkjum KFÍ, en eftir að KFÍ sameinaðist öðrum íþróttafélögum á Ísafirði og Vestri var stofnaður eru búðirnar haldnar undir merkjum Vestra.
Búðirnar í ár eru þær níundu í röðinni og jafnframt þær fjölmennestu en stöðug fjölgun hefur verið í búðunum ár frá ári. Von er á hátt í 160 krökkum á aldrinum 10-16 ára víðsvegar að af landinu. Alls koma í búðirnar krakkar úr 16 körfuknattleiksfélögum og eru kynjahlutföll nánast jöfn því tæplega helmingur þátttakenda eru stúlkur.
Sem fyrr er lögð rík áhersla á að fá hæfustu þjálfara sem völ er á. Tíu aðalþjálfarar munu starfa í búðunum sem allir eru í fremstu röð en þeim til halds og traust verða sjö aðstoðarþjálfarar. Yfirþjálfari búðanna í ár er Ingi Þór Steinþórsson, yfirþjálfari Snæfells.