Á sjó frá barnsaldri en gerðist síðar sérhæfður harðfisksali

Hallur Stefánsson.

Tekið hús hjá Halli Stefánssyni fyrrum kaupmanni í Svalbarða.

Viðtalið birtist fyrst í Jólablaði Skessuhorns 2022. Magnús Magnússon ritstjóri skráði.

Að fæðast og alast upp í litlu sjávarplássi vestur á fjörðum fyrir seinna stríð var mögulega jafn ólíkt og hugsast getur aðbúnaði barna í dag. Lífið á Flateyri við Önundarfjörð hvolfdist um veiðar og vinnslu á fiski, stórir sem smáir tóku þar virkan þátt strax og þeir gátu valdið vettlingi. Viðmælandi okkar var fimm ára þegar hann var sendur með kolafötuna til ömmu sinnar í næsta húsi og einungis tíu ára þegar hann var ráðinn í beitningu upp á stúf, eins og það var kallað. Ellefu ára var hann svo kominn um borð upp á hálfan hásetahlut ásamt vini sínum Villa Valla. Eftir góðan aflamánuð í september 1946 dugði útborgunin til að greiða fyrir skólagöngu í Héraðsskólanum í Reykholti allan næsta vetur. Að tveggja vetra námi í Borgarfirði loknu var aftur haldið vestur, sjórinn togaði og stofnað til fjölskyldu og útgerðar. Tveimur áratugum síðar þoldi bakið ekki meiri kulda og átök á sjónum og var þá söðlað um. Á sjöunda áratugnum var haldið suður og fljótlega keypt rótgróin hverfisverslun við Framnesveg 44 í Reykjavík. Síðari hluti starfsævinnar var unnið við kaupmennsku og sérstaðan í Svalbarða var sala á harðfiski og öðrum rammíslenskum mat. Viðmælandi okkar er Hallur Kristján Stefánsson sem nú á 92. aldursári býr í íbúð sinni við Frostafold í Reykjavík og unir hag sínum vel.

Vestfirðingur í húð og hár

„Foreldrar mínir kynntust á Flateyri. Mamma hét Guðfinna Arnfinnsdóttir og var frá Lambadal, þriðja í röð sautján systkina. Foreldrar hennar voru vel stæðir bændur á þeim tíma í Dýrafirði. Pabbi var Stefán Brynjólfsson frá Mosvöllum í Önundarfirði. Mamma réði sig sem vinnukonu hjá Snorra Sigfússyni skólastjóra á Flateyri, en hann dýrkaði hún alla tíð síðan. Þar kynnast foreldrar mínir og stofna til heimilis, en voru býsna ólík. Hann var sjómaður og hæfileikar hans lágu einkum í hversu handlaginn hann var, en móðir mín var dugnaðarforkur og bætti mann sinn upp með ljúfari skaphöfn. Við systkinin vorum fimm talsins, ég næstyngstur. Pabbi var sjómaður alla tíð meðan hann bjó fyrir vestan, var lengi á togaranum Reykjaborg. Hann hætti á Reykjaborginni rétt áður en togarinn var skotinn niður í stríðinu, var ekki feigur blessaður. Hann var á línubátum eftir það. Mamma vann hins vegar í fiski alla sína tíð. Eftir að foreldrar mínir flytja suður haustið 1967 starfa þau um tíma bæði í Bæjarútgerðinni í Reykjavík; hann við saltfisksverkun og hún í frystihúsinu.“ Eiginkona Halls var Fjóla Haraldsdóttir frá Gerðhömrum í Dýrafirði. Hún lést fyrr á þessu ári, 95 ára að aldri. Börn þeirra eru þrjú en áður átti Fjóla eina dóttur. Afa- og ömmubörnin og afkomendur þeirra eru fjölmargir; fjórtán barnabörn og 31 barnabarnabarn.

Ungur maður kominn í Héraðsskólann í Reykholti.

Ungur í beitningu

En að æskuárunum á Flateyri. „Ég var frekar bráðþroska sem barn og það skorti ekkert upp á sjálfsbjargarviðleitnina. Börn á þessum árum fóru strax að taka þátt í lífsbaráttunni þegar þau gátu, allir reyndu að gera eitthvað gagn. Ein fyrsta æskuminningin mín er þegar ég var sendur til ömmu minnar Kristínar með kol til að hún gæti hitað upp inni hjá sér. Þá var ég líklega fimm ára. Auðvitað lékum við börnin okkur svo líka. Besti vinur minn og leikfélagi í æsku var Villi Valli, Vilberg Valdal Vilbergsson, tónlistarmaður og hárskerameistari, ári eldri en ég. Hann er nú heiðursborgari Ísafjarðarbæjar og búsettur þar. Hann var ósköp vel gerður drengur og aldrei á okkar löngu ævi hefur skugga borið á vináttu okkar.

Hallur og Fjóla ásamt Helgu Guðfinnu dóttur þeirra. Myndin er frá 2015.

Í byrjun júní 1941, þegar ég var tíu ára, var ég ráðinn í beitningu í landi fyrir línubátinn Kvikk ÍS-306. Ég var ráðinn upp á stúf eins og það var kallað, en þá fékk maður þann afla sem fékkst á 100 króka. Róið var með 12 stampa, eða bala eins og það er oft kallað, með sex lóðum í hverjum stampi eða 72 lóðir, 7.200 króka. Við beittum síld og kúfisk. Með æfingunni varð maður býsna snöggur að beita og náði ég því að vinna keppni í kappbeitningu á sjómannadaginn fimm ár í röð. Fyrir það fékk maður koparstamp í verðlaun sem Vilberg Jónsson vélsmiður smíðaði.“

Kvikk ÍS-306 var smíðaður á Ísafirði 1906.

Á sjó

Sumarið þegar Hallur var ellefu ára veikist svo einn hásetinn um borð í Kvikk ÍS. „Eigandi og skipstjóri bátsins hét Helgi Sigurðsson. Hann var Súgfirðingur sem flutt hafði til Flateyrar fyrir stríð. Helgi átti Kvikk ásamt Sigurði syni hans sem var vélstjóri en fimm aðrir voru í áhöfn. „Það þótti upphefð að fá pláss á þessum báti og var eftirsótt. Ég og Villi Valli vorum þarna í ágúst 1941 ráðnir saman upp á einn hlut í fyrstu. Ég var þá ellefu ára og Villi Valli tólf. Það þurfti aðeins að semja við mömmurnar okkar til að þetta fengist í gegn. Mamma var skíthrædd um mig, en Helgi skipstjóri róaði hana og sagðist lofa að passa strákinn.“

Helgi Sigurðsson útgerðarmaður á Kvikk ÍS fór eftir hverja veiðiferð og gaf lítilmögnum soðningu. Hér er mynd af honum sem vafalítið prentast illa og er beðist velvirðingar á því.

Mánaðarlaun fyrir skólagjöldunum

„Kvikk ÍS var skráður 3,5 tonn og var með 15 hestafla sænskri Schefler vél með glóðarhaus, en það þurfti að starta henni með olíulampa. Á Kvikk var róið frá maí og fram í nóvember ár hvert. Mest rérum við út af Sauðanesinu, sem er snarbrött hamrahlíð milli Öndundarfjarðar og Súgandafjarðar, og þar var línan lögð. Þarna lærði maður mikið í sjómennskunni, í raun grunn að öllu sem ég kunni eftir það. Hjá Helga var ég í vinnu í alls sex sumur og ég man að hann skammaði mig aldrei. Hann reyndist mér afar góður. Þegar ég fermdist þrettán ára gaf hann mér tvo hundrað krónu seðla, sem þótti alveg stórkostleg gjöf og stórmannleg. Í staðinn fyrir að skamma þá leiðbeindi Helgi. Hjá honum voru enda margir til sjós sem síðar áttu eftir að verða farsælir togaraskipstjórar, til dæmis þeir Sigurður Kristjánsson og Marteinn Jónasson hjá Bæjarútgerð Reykjavíkur. Ég var sjómaður á Kvikk í fimm sumur. Ég man að mesti aflinn í einum túr var 4,5 tonn, en þá rétt flaut báturinn. Síðasti mánuðurinn hjá mér um borð var í september 1946 en þá vorum við fimm á bátnum. Það var blíðskapar veður allan mánuðinn og róið upp á hvern dag. Ég man að ég fékk 3.400 krónur útborgaðar. Það var nákvæmlega sú upphæð sem ég borgaði þá um haustið fyrir vetrardvöl við Héraðsskólann í Reykholti.“

Foreldrar Halls, þau Stefán og Guðfinna, lögðu áherslu á að börnin þeirra hlytu menntun og hvöttu þau til náms. „Við fórum þrjú systkinin í Reykholt, en Brynhildur elsta systir mín hafði farið fyrst og reyndar kom ekki aftur vestur, kynntist ungum manni í sveitinni og búsetti sig þar. Ég er þarna tvo vetur og var ánægður. Þetta var að mörgu leyti agaður og góður skóli með úrvalsmenn á borð við Þorgils Guðmundsson, bræðurna Björn og Magnús Jakobssyni og séra Einar Guðnason, þeim á ég öllum gott að upp unna,“ segir Hallur.

Hallur er hér við líkan af kútter, sem Stefán Brynjólfsson faðir hans smíðaði árið 1922. Hráefnið sem hann notaði var rekaviður af Hornvík. Líkanið ber nafnið Páll, en skipið er nokkuð nákvæm eftirmynd af kútter Sigurfara sem nú hvílir lúin bein í Görðum á Akranesi.

Haldið suður

Eftir veturna í Reykholti fer Hallur aftur vestur í Önundarfjörð og fór fyrst á bát sem hét Egill Skallagrímsson, sem HB&Co hafði átt en selt Angantý Guðmundssyni skipstjóra á Flateyri. „Ég var með honum nokkuð lengi, en Kvikk hafði þá verið seldur til Bíldudals. Ég geri svo út eigin bát, Kára ÍS-19, í félagi við annan, 6,5 tonna trilla og gekk vel að fiska á honum. Ég og Fjóla giftum okkur 1953 og börnin okkar fæðast fyrir vestan. Árið 1967 hætti ég að læknisráði sjómennsku og við seljum bátinn. Læknirinn sagði einfaldlega við mig að ef ég ætlaði að eiga lengra líf yrði ég að hætta á sjó, ég þyldi ekki kuldann. Haustið 1967 ákveðum við því að flytja til Reykjavíkur og foreldrar mínir fylgja okkur suður. Við komum okkur fyrir á Framnesveginum og fyrstu þrjú og hálft árið starfaði ég hjá heildversluninni Johnson Lindsey. Guðjón Hólm eigandi fyrirtækisins var besti vinnuveitandi sem ég hef haft og reyndist mér mjög vel. Árið 1970 kaupum við svo hverfisverslunina Svalbarða sem var í sama húsi og við bjuggum í. Til að fjármagna kaupin tókum við fjölskyldan okkur til, fengum kindamör frá Reykhúsinu í Skipholti sem kaupmaðurinn hafði tekið upp í skuld, skárum heima og bræddum, formuðum í mót og seldum á hverjum degi í gegnum heildverslunina. Áður hafði ekki verið hægt að kaupa hamsatólg í verslunum.

Um tíma gerði Hallur út bátinn Kára ÍS-19.

Við hjónin bjuggum á efri hæðinni á Framnesveginum en foreldrar mínir í íbúð á neðri hæðinni. Svalbarða rekum við nær samfellt í 30 ár þegar við ákveðum að selja. Reyndar hafði ég í milltíðinni lokað versluninni í tvö ár og tekið að mér verslunarstjórnun í JL húsinu við Hringbraut. En í Svalbarða snéri ég aftur enda féll það mér betur að vera eigin herra. Þá kom með mér í rekstur Svalbarða Björgvin Magnússon sem verið hafði aðstoðar verslunarstjóri í JL húsinu.“

Byggði upp verslun með sérstöðu

Þegar Hallur hóf kaupmennsku í Svalbarða í Reykjavík sá hann fljótlega að byggja þyrfti upp sérstöðu til að auka viðskiptin. Hafandi verið sjómaður í yfir aldarfjórðung ákvað hann að nýta þekkinguna og fara að selja harðfisk og annan séríslenskan mat. Harðfiskur var þá ekki almennt til sölu í verslunum á höfuðborgarsvæðinu eins og við þekkjum í dag. „Ég fór að kaupa harðfisk fyrir vestan og gerði strangar kröfur um gæði og áreiðanleika. Aðallega keypti ég af þremur körlum á Þingeyri, Bolungarvík og Flateyri. Þessi vara spurðist út og á nokkrum árum urðum við stærsti einstaki harðfisksalinn á landinu. Seldum jafnvel tvo togarafarma á ári, eða yfir 20 tonn af þurrkuðum fiski. Til að rúma innkaupin kom ég mér upp frysti- og kæligámum í porti á bak við verslunina. Auk harðfisksins seldum við ýmsan annan íslenskan mat í búðinni. Meðal annars mikið af hákarli. Axel Thorarensen á Gjögri seldi mér reyktan rauðmaga sem varð gríðarlega vinsæl söluvara. Þá keypti ég og áframseldi sólþurrkaðan saltfisk frá Hjálparsveitinni á Ísafirði og Elín í Svartárkoti í Bárðardal seldi mér gríðarlegt magn af reyktum silungi. Með því að leggja áherslu á gamla vestfirska matinn og þjóðlega matarhefð, sem margir þekktu úr æsku, má segja að verslunin hafi gengið ágætlega. Við eignuðumst marga trausta og trygga viðskiptavini sem gátu vitað að hverju þeir gengju,“ segir Hallur.

Kaupmaðurinn í Svalbarða að valsa harðfisk að vestan.

„Ég lét síðan af kaupmennsku þegar ég var sjötugur. Eftir söluna á Svalbarða kaupum við Fjóla okkur íbúð hér í Frostafold í Grafarvogi og hér hef ég búið frá aldamótum.“ Fjólu sína missti Hallur í febrúar á þessu ári en hann býr áfram í íbúðinni sinni. Hann fær heimilishjálp tvisvar í mánuði til að skúra gólfin, en að öðru leyti bjargar hann sér sjálfur og kveðst una hag sínum vel. Börnin hans búa öll á höfuðborgarsvæðinu og eru honum traust stuðnings- og hjálparnet.

Kristín Dóra Ólafsdóttir barnabarn Halls og Fjólu gerði þessa vatnslitamynd af framhlið verslunarinnar Svalbarða við Framnesveg 44.

Viðtalið birtist fyrst í Jólablaði Skessuhorns 2022. Magnús Magnússon ritstjóri skráði.

DEILA