Nýarspredikun biskups Íslands

Prédikun flutt í Dómkirkjunni 1. janúar 2023. 4. Mós. 6:22-27; Post 10:42-43;
Jóh. 2:23-25.
Gleðilegt ár kæru áheyrendur nær og fjær. Nýr dagur er runninn upp með nýju ártali. Áttundi dagur jóla og birtan vinnur á hér á norðurhveli jarðar og myrkrið hopar að lokum fyrir birtunni.
Nýtt ár færir ný tækifæri og oft á tíðum tilefni til að breyta því sem við getum breytt og viljum breyta. Nú svari hver fyrir sig þeirri spurningu hvort tilefni sé til breytinga.
Undanfarið ár hafa miklar beytingar átt sér stað á skipulagi þjóðkirkjunnar. Þær hafa ekki verið mjög sýnilegar nema fyrir okkur sem þjónum kirkjunni. Þær felast meðal annars í því að þjóðkirkjan hefur fengið ný lög sem birta vilja
ríkisins um hlutverk hennar í þjóðfélaginu. Kirkjuþing hefur enn fleiri verkefni en áður og engir embættismenn starfa lengur hjá þjóðkirkjunni. Sú kirkja sem valdi mig til að leiða þjóðkirkjuna fyrir tíu árum er ekki sú sama og þá.
Í dag kemur út Hirðisbréf mitt sem er bréf til fólksins í kirkjunni og annarra sem áhuga hafa. Í bréfinu lýsi ég meðal annars sýn minni á kirkjunni, grundvelli hennar og hvers vegna kirkjunni er ekkert mannlegt óviðkomandi. Erindi og
hlutverk kristinnar kirkju í heiminum byggist á lífi og starfi Jesú Krists sem sagði okkur að koma fram við aðra eins og við viljum að komið sé fram við okkur og að við eigum að elska Guð, náunga okkar og okkur sjálf. Þennan skýra kærleiksboðskap hefur kirkjan boðað alla tíð og mun gera um ókomna tíð.
Bréfið er upptaktur að starfslokum mínum sem leiðtogi íslensku þjóðkirkjunnar. Á næstu átján mánuðum mun ég ljúka þessum kafla ævi minnar sem biskupsþjónustan er. Þegar ég lít yfir farin veg er ég afar stolt af því sem áunnist
hefur. Ég vissi að oft yrði á brattann að sækja í þeirri umbótavinnu sem ég vildi leggjast í. Og oft hefur gefið á bátinn. En þá er gott að hafa styrkingarorð frelsarans í huga og hjarta sem hefur ávallt lægt öldurnar þegar við lærisveinarnir verðum hrædd, þreytt og mædd í bátnum.
Útgáfa sálmabókarinnar er mikið afrek sem ég er afar stolt af. Umhverfismál innan þjóðkirkjunnar hafa vaxið mikið undanfarin ár – þátttaka kirkjunnar við Hringborð norðurslóðanna ber þess glöggt vitni. En betur má ef duga skal. Rödd
þjóðkirkjunnar í mannréttindamálum hælisleitenda og flóttamanna hefur orðið háværari þar sem krafa um mildi og náð er ofar öllu. Framtíð íslensku þjóðkirkjunnar er björt – um það er ég aldrei í vafa þegar ég legg höfuðið á koddann eftir annasaman dag.
Ég mun ljúka einu mikilvægasta verkefni biskups sem er að vísitera, eða heimsækja alla söfnuði landsins og fara í allar kirkjur landsins. Ég þakka þeim sem ég hef þegar heimsótt fyrir góðar móttökur og ekki síður fyrir þá þjónustu
sem þau veita ekki bara þjóðkirkjunni heldur þjóðinni allri. Þar á ég við sóknarnefndirnar sem styðja við kirkjustarfið og sjá til þess að kirkjuhúsin séu til reiðu fyrir athafnir. Sú vinna er öll unnin í sjálfboðinni þjónustu. Þannig heldur fólk um allt land úti menningarverðmætum þjóðarinnar sem eru kirkjuhúsin sem mörg hver eru gömul og því friðuð samkvæmt
landslögum. Fyrir það ber að þakka. Ekki má gleyma því öfluga tónlistarstarfi sem er víða í kirkjum landsins. Organistar og fleira tónlistarfólk heldur því úti með fulltingi kóranna. Í kirkjukórunum er fólk sem ávallt er tilbúð til að bregðast við þegar syngja þarf í kirkjunum við athafnir eða á tónleikum. Það er þakkarvert.

Nú í vor munu kirkjukórarnir og fleira tónlistarfólk taka þátt í hægsjónvarpi þar sem sálmar hinnar nýju sálmabókar verða sungnir allir með tölu frá þjóðsöngnum númer 1 til „Gefðu að móðurmálið mitt“ númer 795. Fyrir utan hið einstaka erindi Jesú Krists er það mannauður þjóðkirkjunnar sem gerir hana sérstæða og stórkostlega að öllu leiti. Því kynnist ég reglulega á ferð minni um landið þegar ég vísitera og fyllist um leið stolti og þakklæti fyrir að hafa valist til þessarar þjónustu.
Þegar ég vígðist til biskups fyrir rúmum 10 árum voru þrír kirkjukórar sem sungu við þá athöfn. Dómkórinn, Mótettukórinn og kirkjukór Bolungarvíkur. Sá kór, sem er mér afar hjarfólginn fylgdi mér að vestan til þjónustunnar við
landsmenn alla. Ég hef hugsað mér að enda vísitasíurnar og um leið biskupsþjónustuna með því að syngja með þeim kór í Hólskirkju í Bolungarvík á sjómannadaginn á næsta ári þegar 12 ár verða frá því ég kvaddi þann góða
söfnuð.
„Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefur sinn tíma“ segir í Prédikaranum. Við mannfólkið höfum margt í huga og getum gert okkur í hugarlund hvernig hið nýja ár verður fyrir okkur hvert og eitt. En ýmislegt
getur þó breytt áformum eins og undanfarin ár hafa sýnt. Við áttum ekki von á heimsfaraldri sem gerði áform að engu. Við áttum ekki von á hruni sem breytti fjárhagslegri stöðu margra og þar með lífsháttum. Við áttum ekki von á því að
stríð brytist út í okkar heimsálfu sem hefur breytt miklu fyrir einstaklinga og heiminn allan.
Hvað boðar nýjárs blessuð sól? spurði sr. Matthías í nýjárssálmi sínum sem við sungum hér áðan. Hann er þess fullviss að í almáttugri hendi Guðs sé hver ein tíð og „hið minnsta happ, hið mesta fár“.

Í dag, fyrsta dag nýs árs höfum við heyrt lesna hina Aronísku blessun sem alltaf er tónuð í lok hverrar guðsþjónustu. Blessunin sú er fyrir hvern einstakling, ekki hópinn heldur hvern þann sem hennar nýtur. Með hana í hug og hjarta förum við út í heiminn til að vinna honum gagn í nafni kærleikans. Drottinn blessi þig og varðveiti þig. Það er gott að byrja nýtt ár með blessun Guðs í hug og hjarta. Blessun sem felur í sér miskunn sem er ný á hverjum morgni. Blessun sem er bæn um vernd, fyrirgefninu og þann frið sem Guð einn getur veitt og við heyrum um í jólaguðspjallinu.
Við biðjum hvert öðru blessunar þegar við kveðjumst og með orðunum sæll og blessaður, sæl og blessuð þegar við heilsumst. Þannig eru mörg orð og orðtök í íslensku komin úr Biblíumáli.
Og fleira fengum við að heyra lesið úr hinni helgu bók hér í dag. Úr Postulasögunni sem segir frá fyrstu dögum kristinnar kirkju hér í heimi var kafli úr ræðu Péturs postula lesin. Þess sama Péturs og kirkja páfans í Róm er kennd
við. Þess sama Péturs og Jesús kallaði til að vera kletturinn sem hann myndi byggja kirkju sína á.
Í ræðu sinni segir þessi sami Pétur að Jesús hafi boðið honum og öllum þeim er meðtekið hafa andann heilaga að prédika fyrir alþjóð og „vitna að hann er sá sem Guð hefur skipað dómara lifenda og dauðra.“ Það er nú gott að vita það að æðsti dómari alls er Guð sjálfur. Þess vegna býðst okkur að treysta Guði fyrir öllu okkar, góðu sem slæmu, auðveldu sem erfiðu. Það hafa margir gert í gegnum aldirnar og borið honum vitni sem fæddist í Betlehem og var í jötu lagður. Oft hefur verið þörf á því á okkar ísa kalda landi að treysta því að Guð myndi vel fyrir sjá. Þegar róa þurfti til fiskjar og ekki gaf á sjó og marga munna að metta eða þegar kýrin eina gaf ekki næga mjólk fyrir börnin öll. Nú fer flest fólk í búðina og velur fæðu sér til matar en því miður eru of margir á meðal okkar sem ekki hafa tök á því vegna fátæktar. Kristin kirkja minnir á þau sem og þau öll er búa við óöryggi, heilsuleysi, húsnæðisleysi og minnir okkur sem höfum meira milli handa og búum við öryggi að skipta með öðrum.
Á annan í jólum var sagt frá Skjólinu í Landanum í Ríkissjónvarpinu. Það gladdi mig að heyra að hugmynd mín sem varð að veruleika vegna alls þess góða fólks sem framkvæmdi hana og þeirra sem vinna í Skjólinu hefur orðið þeim sem þangað sækja til blessunar. Guð veit hvað í okkur býr hverju og einu. Guð veit að þær konur sem Skjólið sækja eru eins og við öll. Við þráum öryggi, umhyggju, hlýju, fæði, klæði og húsaskjól. Kristin kirkja hefur alla tíð hugað að því að trúin birtist í verkunum. Þó lýðræðissamfélög nútímans hafi það hlutverk að jafna stöðu fólks mun kristin kirkja aldrei láta af því hlutverki sínu að boða trú í verki. Það á við í mannréttindamálum, umhverfismálum og öllum þeim málum sem mannkyn glímir við hverju sinni.
Átján mánuðir. Já, á næsta eina og hálfa ári mun fólkið í kirkjunni búa sig undir að velja nýjan biskup Íslands. Kosningarétt hafa þau öll sem í sóknarnefndum sitja, þau öll sem vígð eru og þau öll er á kirkjuþingi sitja. Þjóðkirkjan býr við fulltrúalýðræði – lýðræði þjóðkirkunnar er einn af hornsteinum starfsins og meðal annars þess vegna verður hún kirkja fólksins um ókomin ár. Það eru fulltrúarnir sem kjósa biskupinn. Þau gera upp við sig hvers konar leiðtoga þau
vilja sjá og svo að lokum hvaða leiðtoga þau krossa við á kjörseðlinum. Ég vil að þau sem undirbúa þá kosningu hafi nægan tíma til undirbúningsins og þau sem hyggjast gefa kost á sér hafi nægan tíma til að undirbúa sig og kynna sín
sjónarmið.
Í kringum þá miklu uppskeru og gleði sem fylgir því að kjósa nýja biskup Íslands hef ég ákveðið að þjóðkirkjudagar verði aftur á mörkum sumar og hausts árið 2024. Þar mun þjóðkirkjan opna víðfemt, fjölbreytt og öflugt starf
sitt upp á gátt í eina viku með fjölbreyttum viðburðum. Karnival kirkjunnar mætti kalla dagana líka. Kirkjudagar munu síðan enda með vígslu á nýjum biskupi Íslands, í bæn og lofgjörð, gleði og söng.
Saman vinnum við biskupsembættið, rekstrarstofa þjóðkirkjunnar og kirkjuþing að því að gera þjóðkirkjuna betri, kirkjunar öruggar fyrir alla, koma fjármálunum í jafnvægi, minna á þann siðferðilega vanda sem loftslagsbreytingarnar eru og minna sífellt á að við erum öll á sama báti hér í heimi og eigum að hjálpast að við að gera heiminn betri og öruggari, mannkyni til heilla og Guði til dýrðar.
Megi nýja árið, árið 2023 vera okkur blessunarríkt, gleðilegt og farsælt, í Jesú nafni.

Sr Agnes M. Sigurðardóttir

DEILA