Blámi sem er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða og Vestfjarðastofu, og hefur það hlutverk að efla nýsköpun og þróa orkuskiptaverkefni, hefur valið 10 bestu orkuskiptaverkefnin á árinu 2022.
Listinn hefði vissulega getað verið lengri og sem betur fer eru mörg spennandi verkefni í gangi og mikið af metnaðarfullu fólki og fyrirtækjum að gera góða hluti þegar kemur að orkuskiptum
Mörg þessara verkefna voru styrkt af Orkusjóði en sjóðurinn hefur sannað sig sem einn mikilvægasti hlekkur í að raungera orkuskiptaverkefni.
- Brimborg
Veltir sem er atvinnutækjasvið Brimborgar er að flytja inn 23 rafknúna vöruflutningabíla í samvinnu við nokkur fyrirtæki á Íslandi. Um er að ræða steypubíla, flutningabíla, vörubíla og önnur stór tæki sem ganga fyrir 100% rafmagni. Verkefnið er mikilvægt skref í að draga úr losun en vöruflutningar bera ábyrgð á stórum hluta losunar frá samgöngum.
- Clara Arctic Energy og VETNIS
Þó svo að 100% rafmagn muni henta mikið af tækjum, mun það ekki leysa öll okkar vandamál. Clara Arctic Energy og VETNIS eru íslensk fyrirtæki sem vinna að því að koma fyrstu vetnis-knúnu trukkunum á götuna á Íslandi en vetni getur hentað bílum og tækjum sem þurfa mikið afl, eru langt frá innviðum eða keyra langar vegalengdir í einu. Vetni gæti líka hentað stórum „búkollum“ snjótroðurum og stórum gröfum svo dæmi séu tekin.
- Háafell og Arctic Sea Farm
Fiskeldisfyrirtækin Háafell og Arctic Sea Farm fjárfestu í landstraumstengingu fyrir fóðurpramma á árinu. Þessi tvö verkefni fasa út yfir 200.000 lítra af olíu á ári sem er svipað og árleg notkun 200 fólksbíla. Gera má ráð fyrir frekari fjárfestingu í orkuskiptum fóðurpramma á nýju ári bæði á Austfjörðum og Vestfjörðum.
- Carbon Recycling International
Frá árinu 2012 hefur CRI eða Carbon Recycling International verið í fremstu röð fyrirtækja í heimi þegar kemur að framleiðslu á grænu metanóli. Grænt metanól er framleitt úr vetni og CO2 en hægt er að nota metanól til að skipta út olíu á stórum skipum og varaaflsvélum svo dæmi séu tekin. Á þessu ári kom CRI að uppsetningu á metanólverksmiðju í Noregi og Kína og er klárlega eitt af mest spennandi orkuskipta-fyrirtækjum á Íslandi. Þess má geta að annað orð yfir metanól er tréspíri fyrir þau sem það þekkja
- Útgerðarfélag Reykjavíkur
Talandi um metanól þá vinnur Útgerðarfélag Reykjavíkur að mjög spennandi og metnaðarfullu verkefni sem gengur út á að gera Guðmundi í Nesi, frystitogara félagsins, kláran í að nota metanól sem eldsneyti. Þetta er mikilvægt skref og getur orðið fyrirmynd fyrir önnur útgerðarfélög en skip og bátar nota um 26% af allri olíu sem notuð á Íslandi.
- Faxaflóahafnir og Eimskip
Faxaflóahafnir hafa verið í fararbroddi orkuskipta og tóku nýlega í gagnið stóra landtengingu fyrir tvö af skipum Eimskips. Gera má ráð fyrir að þessar landtengingar spari um 240.000 lítra af olíu á ári en Faxaflóahafnir hafa uppi frekari áform um stórar landtengingar á næstu árum.
- RST-Net
RST-Net hefur uppi metnaðarfull áform um að koma upp innviðum og búnaði til að rafvæða flutninga á Vestfjörðum og strætisvagna í Reykjanesbæ. Fyrirtækið hefur áður komið að mikilvægum orkuskiptaverkefnum en RST-Net kom að uppsetningu á hleðsluinnviðum fyrir Herjólf sem er fyrsta skip á Íslandi til að nota rafmagn að hluta.
- Alor
Rafhlöðuframleiðandinn ALOR hefur á undanförnum árum unnið að gerð rafhlaðna úr áli. Rafhlöður úr áli eru léttari og að mörgu leiti umhverfisvænni en hefðbundnar rafhlöður. Fyrir stuttu gerði fyrirtæki samning við gagnaversfyrirtækið AtNorth um að nota rafhlöðulausn ALOR í varaafl fyrir gagnaverðið
- Iceland Air og Landsvirkjun
Fyrr á þessu ári tóku Landsvirkjun og Iceland Air höndum saman við þróun lausna í orkuskiptum í flugi á Íslandi. Fyrirtækin studdu við kaup og rekstur á fyrstu rafmagnsflugvélinni sem kom til landsins og hafa uppi metnaðarfull áform um orkuskipti í innanlandsflugi á næstu árum.
- Sidewind
Sidewind hefur unnið að spennandi vindmyllulausn sem nýtist flutningaskipum til að draga úr olíunotkun með því að nýta hliðarvind á meðan skipin eru á siglingu. Vindmyllur sidewind framleiða rafmagn og létta þannig á vélum skipanna sem dregur úr olíunotkun. Lausn Sidewind hefur vakið athygli en þau fengu Svifölduna, hvatningarverðlaun TM sem veitt eru á Sjávarútvegsráðstefnunni og nýsköpunarverðlaun Sjávarklasans.