Merkir Íslendingar – Björn Bjarnarson

Björn Bjarnarson  fæddist í Kaupmannahöfn þann 23. desember 1853.

Hann var sonur Stefáns Bjarnarsonar, sýslumanns og bæjarfógeta á Ísafirði og síðar sýslumanns í Árnessýslu með búsetu í Gerðiskoti í Flóagaflshverfi, og k.h., Karen Emelie Bjarnarson, f. Jöregensen, húsfreyju á Ísafirði og í Gerðiskoti.

Eiginkona Björns var Guðný, dóttir Jóns Borgfirðings Jónssonar, bókbindara og bóksala á Akureyri og síðar lögregluþjóns og fræðimanns í Reykjavík, og k.h., Önnu Guðrúnar Eiríksdóttur húsfreyju.

Björn og Guðný eignuðust sjö börn en meðal þeirra var Ingibjörg Bjarnason, kennari og þekktur kennslubókahöfundur.

Björn Bjarnarson lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1877 og embættisprófi í lögfræði frá Hafnarháskóla 1883.

Að loknum prófum dvaldi Björn í Kaupmannahöfn um skeið, var aðstoðarmaður hjá fógeta konungs og sinnti ritstörfum.

Björn  stofnaði m.a. eitt þekktasta tímarit Dana, Hjemmet, sem upphaflega hét Vort hjem, og var ritstjóri þess og Heimdallar í Kaupmannahöfn.

Heimkominn gegndi Björn sýslumannsstörfum í Þingeyjarsýslu, var aðstoðarmaður föður síns í Árnessýslu.

Björn Bjarnarson var sýslumaður Dalasýslu 1891-1914 og bjó þá að Sauðafelli. Hann var alþingismaður Dalasýslu á árunum 1900-1908.

Björn var upphafsmaður að stofnun málverkasafns árið 1885 með gjöfum frá dönskum málurum en safnið varð síðan vísir að málverkasafni ríkisins  Listasafni Íslands -.

Þá var Björn einn helsti hvatamaður að stofnun Hins íslenska náttúrufræðifélags 1889 og Náttúrugripasafns Íslands sama ár.

Björn stofnaði auk þess pöntunarfélag og unglingaskóla í Búðardal.

Björn Bjarnarson lést þann 12. desember 1918.

DEILA