Árni Guðmundur Friðriksson fiskifræðingur fæddist á Króki í Ketildalahreppi í Barðastrandarsýslu 22. desember 1898.
Hann var sonur Friðriks Sveinssonar, bónda á Króki, og k.h., Sigríðar Maríu Árnadóttur húsfreyju.
Friðrik var sonur Sveins, bónda í Klúku Gíslasonar, bróður Kristínar, ömmu Ólafs Magnússonar, trésmiðs og kaupmanns í Reykjavík, stofnanda Fálkans, föður Haralds, Braga, Sigurðar og Finnboga, forstjóra Fálkans, og Ólafs, íslenskukennara við MR. Sigríður var dóttir Árna, bónda í Krossdal í Tálknafirði Ólafssonar.
Árni og Bjarni Sæmundsson voru helstu frumkvöðlar fiskifræðinnar á Íslandi og unnu ómetanlegt brautryðjandastarf í þágu hinnar ungu fræðigreinar hér á landi, enda hafa fiskirannsóknarskip Hafrannsóknastofnunar borið nöfn þeirra um árabil.
Árni lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1923, stundaði nám í Kaupmannahöfn og lauk magistersprófi í dýrafræði við Kaupmannahafnarháskóla 1929. Hann var aðstoðarmaður hjá prófessor Schmidt við Carlsberg Laboratorium 1929-30, var ráðunautur Fiskifélags Íslands 1931-37, forstöðumaður fiskideildarinnar í atvinnudeild HÍ 1937-53, og var síðan framkvæmdastjóri Alþjóðahafrannsóknaráðsins 1954-65.
Árni hafði áhuga á að fræða almenning um hafrannsóknir og hélt því fyrirlestra um greinina í Ríkisútvarpið, nýkominn heim, 1931. Þeir vöktu mikla athygli. Hann stundaði rannsóknir á síld og þorski hér við land og beitti sér fyrir notkun bergmálsmælis en slíkar fisksjár hafa síðan valdið straumhvörfum við veiðar og rannsóknir.
Eftir Árna liggja mikil skrif um fiskrannsóknir, bæði bækur, greinar og erindi í íslenskum og erlendum fræðiritum. Þekktustu rit hans eru Áta íslenzkrar síldar, útg. 1930, og Aldahvörf í dýraríkinu, útg. 1932.
Árni lést 16. október 1966.
Skráð af Menningar- Staður.