Nærri 90% svarenda í nýrri könnun Rannsóknarstofnunar Háskólans á Akureyri eru frekar eða mjög sammála þeirri staðhæfingu að mikilvægt sé að hafa Reykjavíkurflugvöll þar sem hann er staðsettur nú.
Könnunin var framkvæmd fyrir Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi eystra.
Það er vikubladid.is á Akureyri sem greinir frá þessu.
88% hugnast ekki að flytja innanlandsflugi til Keflavíkur
Í fréttinni kemur einnig fram að 88% sögðust mjög eða frekar ósammála staðhæfingunni: Mér hugnast vel að miðstöð innanlandsflugs flytjist til Keflavíkurflugvallar. Einnig sögðu 88% þátttakenda frekar eða mjög sammála því að mikilvægt væri að efla þjónustu í landshlutanum ef flugvöllurinn í Reykjavík leggst af. Þá sögðust 65% frekar eða mjög sammála því að samgöngur um landleiðina verði mikilvægari í framtíðinni.
Millilandaflug bætir búsetuskilyrði
Þá var einnig spurt um millilandaflug frá Akureyri. Fram kom í könnuninni að um fjórðungur svarenda (26%) höfðu nýtt sér nýhafið millilandaflug frá Akureyrarflugvelli, en 77% höfðu áform um að nýta sér það á næstu 6 mánuðum. 86% svarenda sögðust frekar eða mjög sammála því að búsetuskilyrði sín batni við að fá reglulegt millilandaflug frá Akureyrarflugvelli. Svarendur búsettir á Akureyri og nágrenni Akureyrar voru einkum mjög sammála þessari staðhæfingu eða ríflega 70% svarenda samanborið við 43% á Húsavík.
Könnunin fór fram í september og var netkönnun um innviði á Norðurlandi eystra. Svarendur eru búsettir í Norðurlandi eystra.