Í örnefnalagi IS 50V hjá Landmælingum Íslands er að finna rúmlega 162 þúsund örnefni en örnefnalagið breytist stöðugt.
Í frétt Landmælinga kemur fram að á síðustu mánuðum hafa skráningaraðilar á Norður- og Austurlandi verið virkastir að skrá örnefni.
Örnefnateymi Landmælinga Íslands hefur hnitað inn fjölmörg örnefni af kortum og loftmyndum sem er að finna á drifum og skjalasafni stofnunarinnar. Einnig hefur verið gert átak í að gera lagfæringar í grunninum, t.d. við að breyta línum og punktum með nafnbera fjall, fell og fjallgarður í fláka og finna heimildir með þeim örnefnum.
Örnefnateymið er í miklu samstarfi við Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum þegar upp koma vafaatriði auk þess sem þaðan eru send örnefnagögn í formi mynda, korta og hnita sem eru sett inn. Þessi vinna með myndir og nafnberalistann heldur áfram enda er mikið verk óunnið þar.
Frá útgáfunni í júní voru nýskráningar alls 6070. Heildarfjöldi örnefna í útgáfunni er nú rúmlega 162 þúsund en það má nefna að í desemberútgáfunni fyrir ári síðan var heildartalan tæplega 149 þúsund og hefur örnefnum því fjölgað um 13þúsund í örnefnagrunninum á einu ári. Uppfærð örnefni birtast vikulega í vefsjám.