Ísafjörður: endurskoða erindisbréf starfshóps um framtíðarskipulag Torfnessvæðisins

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar frestaði því á fimtudaginn að skipa í starfshóp um framtíðarskipulag Torfnessvæðsins. Starfshópurinn var settur á fót fyrir tveimur árum og hélt þrjá fundi, þann síðasta í maí 2021. Íþrótta- og tómstundaráð hefur óskað eftir því að bæjarstjórn skipi nýjan starfshóp um framtíðarskipulag Torfness og ljúki þeirri vinnu sem hafin er.

Forseti bæjarstjórnar Sigríður Júlía Brynleifsdóttir hafði efasemdir um málið og spurði hver markmið starfshópsins ættu að vera. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins töldu ekki rétt að skipa sérstakan starfshóp heldur ætti að fela íþrótta- og tómstundaráði að vinna verkið auk þess sem til væri deiliskipulag af svæðinu sem væri framtíðaskipulagið. Bæjarfulltrúar Framsóknarflokksins voru því ósammála og töldu þörf á starfshópnum og því að móta stefnu um hvaða mannvirki ættu að vera á svæðinu, svo sem til dæmis sundlaug.

Niðurstaðan varð að endurskoða erindisbréf starfshópsins og fresta því að skipa í hann þar til því væri lokið.

Erindisbréf starfshópsins frá 2020 er þríþætt:

  1. Útbúa þarfagreiningu og tillögur að framtíðarskipulagningu og heildstæðri
    uppbyggingu íþróttamannvirkja á Torfnesi, sérstaklega hvað varðar líkamsrækt og
    sundlaugaraðstöðu. Horfa skal jafnframt til annarrar starfsemi í húsinu, s.s. þörf fyrir
    geymsluaðstöðu, eldhús og aðra þjónustu.
  2. Gera tillögu til bæjarstjórnar um hönnun, byggingu, útboð og hugsanlega
    áfangaskiptingu verksins, ásamt rekstrar- og kostnaðaráætlun, á mögulega
    mismunandi útfærslum svæðisins.
  3. Vera embættismönnum til ráðgjafar varðandi allt það sem snýr að uppbyggingu
    íþróttamannvirkja á Torfnesi.

DEILA