Crystal Symphony sleppir Ísafjarðarkomu

Skemmtiferðaskipið Crystal Symphony sem vera átti á Ísafirði í dag lenti í slæmu veðri á ferð sinni frá Nýfundnalandi til Íslands fyrir helgi. Það tafði ferðir skipsins og var því ákveðið að sleppa heimsókn á Ísafjörð að þessu sinni og fer skipið bara til einnar hafnar á Íslandi, Reykjavíkur. Crystal Cruises býður upp á lúxussiglingar þar sem gestir þeirra njóta mikilla vellystinga í skemmtiferðaskipum, snekkjum og fljótabátum. Þó vistarverur Crystal Symphony séu hinar huggulegustu mun skipið í fara í slipp í haust þar sem það verður tekið í gegn og til að mynda herbergin stækkuð.

Crystal Symphony átti að vera sjötta í röð skemmtiferðaskipa sem heimsækja Ísafjörð þetta sumarið og má segja að vertíðin hafi hafist fyrir alvöru á laugardag er tvö skip voru í höfn með um 2900 gesti innanborðs að áhöfnum ótöldum.

annska@bb.is

DEILA