Það var ekki bjart yfir stuðningsmönnum Vestra í hálfleik í leik liðsins við Völsung á Torfnesvelli á laugardag. Liðið var 0-1 undir og hafði varla ógnað marki mótherjans í þær 45 mínútur sem voru liðnar af leiknum og fékk á sig klaufalegt mark á 24. mínútur. Það dimmdi enn meira yfir stúkunni þegar átta mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þegar Völsungar skoruðu sitt annað mark og vandræðalegt tap á heimavelli blasti við. Ögurstund leiksins var á 57. mínútu þegar Danimir Milkanovic þjálfari skipti Gilles Ondo inn á. Hann átti eftir að gjörbreyta leiknum og styrkleiki hans, tækni og leikskilningur færði spilamennsku Vestra upp á annað og betra plan. Á 69. mínútu krækti hann í víti sem Kevin Alson Schmidt skoraði úr. Á 80. mínútu kom góð fyrirgjöf inn í teig Völsungs sem Ondo skallaði út í teig hvar Nikulás Jónsson kom askvaðandi og smellhitti boltann og jafnaði leikinn með óverjandi skoti – staðan orðin jöfn. Völsungar vörðust fimlega og voru skipulagðir og Vestramenn reyndu allt til að knýja fram sigurmark án þess að komast í afgerandi færi. Nokkuð var um tafir í leiknum og dómarinn bætti fimm mínútum við venjulegan leiktíma. Á 95. mínútu fékk Vestri hornspyrnu og hver annar en Gilles Ondo stangaði boltann í netið og við það sama flautaði dómarinn til leiksloka ótrúlegur sigur Vestra í höfn og kættist þá heldur betur yfir stúkunni.
Vestri er í þriðja sæti deildarinnar með 9 stig, jafnmörg og Afturelding sem er með betra markahlutfall.
Næsti leikur liðsins er á laugardag við Huginn og verður leikið á Seyðisfjarðarvelli.