Förguðu rannsóknargögnum í nauðgunarmáli

Kona sem kærði nauðgun til Lögreglunnar á Vestfjörðum í desembermánuði árið 2014 hefur nú höfðað einkaréttarmál vegna málsins, en málið var fellt niður á sínum tíma. Á fréttamiðlinum Vísi má sjá feril málsins rakinn. Þar kemur fram að konan hafi þann 14.september árið 2014 leitað til læknis á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði eftir að hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu tveggja manna í samkvæmi í heimahúsi á Ísafirði. Lögregla var kölluð til, en neitaði læknirinn, sem var í afleysingum við stofnunina, að veita upplýsingar um brotaþola og hugsanlega gerendur.

Málið var þann 5.desember sama ár kært til Lögreglunnar á Vestfjörðum. Hinir grunuðu voru þá staddir erlendis og því ekki hægt að yfirheyra þá, þeir voru teknir í fyrstu yfirheyrslu þann 24.febrúar 2015 eftir að þeir komu aftur til Ísafjarðar. Skömmu áður hafði Lögreglan óskað eftir rannsóknargöngum frá Fjórðungssjúkrahúsinu, þaðan sem svarað er þann 18.mars að gögn hafi þegar verið send. Í sumarbyrjun sendir Lögreglan málið til Ríkissaksóknara, sem í júlímánuði óskar þess að málinu sé betur sinnt og krefst þess að fá gögnin afhent. Þann 5.ágúst 2015 er á ný óskað eftir gögnunum frá Fjórðungssjúkrahúsinu og var því þá svarað að þeim hafi verið fargað þremur vikum fyrr.

Þolandinn hefur nú höfðað einkaréttarmál gegn mönnunum tveimur, sem verður að óbreyttu tekið fyrir í næsta mánuði. Fer konan fram á fullar bætur vegna þess tjóns sem hún varð fyrir.

annska@bb.is

DEILA