Edinborgarhúsið: Hannah Felicia – Dansverk

Dansverkið Hannah Felicia verður sýnt í Menningarmiðstöðinni Edinborg miðvikudaginn 23. nóvember, kl. 18:00. Verkið fjallar um systrabönd og samband tveggja manneskja. Eða eru það kannski frekar tvær hliðar á sömu manneskjunni? Manneskju sem þráir að vera sýnileg, viðurkennd og elskuð.

Dansverkið Hanna Felicia er samstarf íslenskra og sænskra listamanna. Spinn Danskomaniet er atvinnudansflokkur með dönsurum sem eru bæði fatlaðir og ófatlaðir og hefur aðsetur í Gautaborg. Lára Stefánsdóttir er danshöfundurinn, Högni Egilsson semur tónlistina, ljósahönnun er í höndum Þórarins Guðnasonar og höfundur ljósmynda er Anna Ósk Erlingsdóttir.

Sýningin er með lesnum sjóntexta sem gerir hana aðgengilega, bæði fyrir almenna gesti en ekki síður sjónskerta og blinda. Í lok verksins verða umræður við Láru Stefánsdóttur danshöfund. Sýningin og umræður standa í u.þ.b. klukkustund.

Miðaverð:
Almennt miðaverð: 1.500 kr.
Eldri borgarar, börn og námsmenn: 1.000 kr.

Verkið verður einnig sýnt á Reykjavík Dance Festival.

Sýningin í Edinborgarhúsinu nýtur stuðnings frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og ferð danshópsins til Íslands er studd af Kulturrådet í Svíþjóð og Sænsk-íslenska samstarfssjóðnum.

DEILA