Uppskrift vikunnar – Hægeldaðir lambaskankar

Lambaskankar eru mjög gott hráefni og tölum ekki um hvað kjötið verður yndislega meyrt þegar það er hægeldað.

Mjög klassískt meðlæti með þessari uppskrift er gamla góða kartöflumúsin og ferskt salat. Og alls ekki gleyma sultunni.

Innihald:

4 skankar

2 gulrætur skrældar og skornar hæfilega fínt

2 sellerý stilkar skornir í bita

1 laukur saxaður

5 dl rauðvín

3 bollar lamba soðkraftur

2-3 greinar ferskt rósmarín

salt og pipar

olía

Aðferð:

Kryddið skankana vel með salti og pipar og brúnið síðan vel olíu á pönnu, setjið þá í góðan pott sem má fara inn í ofn. Steikið næst gulræturnar, sellerý og laukinn í olíunni í 8-10 mín, bætið þá víninu út í og sjóðið það niður um helming (ca 10 mín). Þessu er svo hellt yfir skankana ásamt lambasoðinu og rósmarínstilkunum, lokið á og potturinn settur inn í 150 ° heitan ofninn í 4 klukkustundir.

Eftir 4 klst eru skankarnir teknir upp úr pottinum, mjög varlega annars detta þeir í sundur. Setjið pottinn næst á eldavél og sjóðið soðið aðeins niður ef þarf, smakkið það og kryddið eftir þörfum.

Verði ykkur að góðu!

Halla Lúthersdóttir.

DEILA