Fyndnin tekur völdin í Bolungarvík

Sveppi og Villi í banastuði.

Gleðin verður við völd í Bolungarvík á morgun, uppstigningadag er þrír af fyndnari mönnum landsins troða þar upp. Á vaðið ríða þeir Sveppi og Villi sem verða með fjölskylduskemmtun í Félagsheimilinu í Bolungarvík klukkan 13. Þá Sveppa og Villa þarf vart að kynna enda hafa þeir um árabili verið í hópi vinsælustu skemmtikrafta landsins og hafa þeir verið með eindæmum afkastamiklir þar sem þegar hafa þeir gert yfir 100 sjónvarpsþætti, 4 gríðarvinsælar kvikmyndir, metsölu- og verðlaunabækur og óteljandi framkomur á allskonar skemmtunum. Að sýningu lokinni býðst gestum upp á að spjalla við Sveppa og Villa ásamt því að fá mynd af sér með þeim drengjum.

Grínistinn Pétur Jóhann.

Um kvöldið verður svo skemmtikrafturinn Pétur Jóhann með uppistandssýninguna Pétur Jóhann óheflaður. Þar mun hann vera með brot af sínu besta efni til þessa sem og glænýtt efni og gætu Tong, Gunnþór, kötturinn og mögulega svínamaðurinn sett svip sinn á kvöldið. Húsið opnar klukkan 20 og sýning hefst klukkan 21.

DEILA