Djúpið viðfangsefni árbókar Ferðafélagsins

Árbók Ferðafélags Íslands kemur nú út í nítugasta sinn. Í ár er Ísafjarðardjúp til umfjöllunar. Um Djúpið hefur verið fjallað einu sinni áður, árið 1949 þegar Jóhann Hjaltason skrifaði um Norður-Ísafjarðarsýslu, þar með talda Jökulfirði og Hornstrandir. Um þau ævintýralönd fjallaði Guðrún Ása Grímsdóttir í árbókinni 1994.

Ísafjarðardjúp með fjörðum sínum og inndölum ásamt Snæfjallaströnd, Bolungarvík, Hnífsdal, Súðavík og Ísafjarðarkaupstað er sannkallað gósenland ferðamannsins. Inn í sérstæða náttúrufegurð Djúpsins fléttast svo áhugaverð menningar- og atvinnusaga.

Höfundur þessarar árbókarinnar er dr. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir þjóðfræðingur. Hún er þaulkunnug svæðinu og á ættir sínar að rekja til Vestfjarða auk þess að hafa búið á Ísafirði um árabil. Hún er útivistarkona af lífi og sál og kannaði ýmsar gönguleiðir gagngert fyrir árbókina.

Bókin er 272 blaðsíður. Um 170 ljósmyndir og 19 uppdrættir prýða bókina auk rammagreina og yfirlitstaflna. Sem löngum fyrr teiknaði Guðmundur Ó. Ingvarsson kortin og Daníel Bergmann tók flestar ljósmyndirnar en tæplega tveir tugir annarra ljósmyndara eiga einnig myndir í bókinni. Vandaðar atriðisorðaskrár auka verulega notagildi verksins.

Ritstjóri árbókarinnar er Gísli Már Gíslason, og ritnefnd skipa auk hans Daníel Bergmann, Eiríkur Þormóðsson og Guðrún Kvaran en þau hafa öll lagt árbókum Ferðafélagsins lið í áratugi.

Árbækur Ferðafélags Íslands hafa komið út árlega óslitið síðan 1928. Í hverri bók er oftast lýsing á afmörkuðu svæði og sögulegt efni tengt því. Nær nú efni bókanna um landið allt, víða í annað eða jafnvel þriðja sinn. Árbækurnar, 90 að tölu, eru því víðfeðm Íslandslýsing á meira en fimmtán þúsund blaðsíðum. Auk þess er greint frá starfi félagsins og deildanna á landsbyggðinni á síðasta ári.

DEILA