Í Bolungavík er að rísa turn við fiskvinnsluhús Jakobs Valgeirs ehf sem dregur að sér athygli þótt hann sé enn ekki fullbúinn. Eins og sjá má á myndinni hallar hann verulega. Verið er að klæða turninn og verður sett utan á hann fyrir veturinn bárujárn. Turninn er fyrir stiga og lyftu upp á aðra hæð hús þar sem skrifstofur og kaffiaðstaða eru.
Guðbjartur Flosason, framleiðslustjóri sagði í samtali við Bæjarins besta að byrjað hefði verið á framkvæmdunum í fyrra. Þá hefðu grindin fokið í vondu veðri og var gripið til þess ráðs að setja stálgrind í turninn til styrktar og taldi Guðbjartur að mannvirkið væri nú orðið traust. Áætlað er að mannvirkinu verði lokið næsta sumar.
Ljóst er að turninn vekur athygli og minnir jafnvel á skakka turninn í Pisa. Skakki turninn í Bolungavík hallar þó augljóslega mun meira en sá í Pisa sem hallar um 4 gráður. Spurður um þetta svaraði Guðbjartur því til að það væri ekkert verra ef turninn myndi verða kennileiti sem ferðamenn koma til með að skoða.