Um 30 stelpur úr 9. bekk í grunnskólum á Ísafirði, Bolungarvík og Súðavík kynna sér í dag fjölbreytt tæknileg viðfangsefni og starfsmöguleika í tæknifyrirtækjum viðburðinum Stelpum og tækni í Háskólasetri Vestfjarða. Viðburðurinn Stelpur og tækni er nú haldinn í fjórða sinn í samstarfi Háskólans í Reykjavík, SKÝ og Samtaka iðnaðarins. Markmiðið er að vekja áhuga stelpna á fjölbreyttum möguleikum í tækninámi og störfum, kynna þær fyrir fyrirmyndum í tæknigeiranum og brjóta niður staðalímyndir. Grunnskólastelpur Í Reykjavík, á Akureyri og í Fjarðabyggð hafa einnig fengið að kynnast tæknigeiranum á Stelpum og tækni í sinni heimabyggð, á vegum HR.
Á Ísafirði fara stelpurnar í vinnusmiðju í umsjá /sys/tra, félags kvenna í tölvunarfræði við HR. Síðan fara stelpurnar í heimsókn í tæknifyrirtækið 3X þar sem þeim verður veitt innsýn í í starfsemina og þau tækifæri sem stelpum bjóðast á vinnumarkaði að loknu tækninámi.
„Girls in ICT Day“ er haldinn víða um Evrópu í apríl á hverju ári í tengslum við Digital Agenda-áætlunina. HR hefur haldið utan um daginn hér á landi frá upphafi. Stelpur og tækni er styrkt af Jafnréttissjóði og Framkvæmdasjóði jafnréttismála.