Undirritaður, sem starfaði sem læknir á Ísafirði í 27 ár og þekkir vel til þjónustusvæðis Hvest, (Heilbrigðisstofnun Vestfjarða) dvaldi nýliðið sumar í Álftafirði við Ísafjarðardjúp. Hvar sem ég kom eða hvert sem ég fór hitti ég skjólstæðinga Hvest. Sameiginlegt meðal flestra þeirra, einkum þeirra sem komnir voru yfir miðjan aldur, var umræða um vandamál að ná í lækni eða að fá tíma á heilsugæslustöð, langur biðtími eftir símtali og eða viðtali við lækni. Þegar líða tók á sumarið kvörtuðu skjólstæðingarnir yfir að þurfa að tala ensku eða dönsku í samskiptum við lækna þá loksins er þeir fengu viðtal.
Í ljósi þess sem áður er sagt hafði ég samband við forstjóra Hvest, Gylfa Óafsson, sem jafnframt er í forsvari Ísafjarðarbæjar sem formaður bæjarráðs og ámálgaði við hann að ég væri tilbúinn að starfa sem heilsugæslulæknir með móttöku í Súðavík. Væri reiðubúinn að starfa tvær vikur í mánuði, sjá 15 skjólstæðinga á dag, taka símtöl, sinna lyfjaendurnýjun og tala íslensku! Mér fannst sem forstjóranum þætti þetta ekki svo slæmt en hann vildi íhuga þetta tilboð og við myndum svo vera í sambandi eftir nokkra daga. Við náðum svo saman aftur að 5 dögum liðnum, í stystu máli þá afþakkaði forstjórinn þetta „tilboð“ mitt.
Ég gat ekki látið hjá líða að benda honum á að hann sem forstjóri Hvest bæri ábyrgð á að framboð heilbrigðisþjónustu væri nægt og sem forsvarsmaður bæjarins væri hans að sjá að grunnþjónusta við íbúa Ísafjarðarbæjar væri í lagi. Heilbrigðisþjónusta er einn af mikilvægust grunnstoðum hvers samfélags. Þessi athugasemd kom, að mér virtist, nokkuð flatt upp á forstjórann, sem hváði og spurði: Ætlar þú með þetta í BB? Ja mér hafði nú ekki komið slíkt í hug svaraði ég að bragði en fyrst þú stingur uppá því mun ég skoða það. Auðvita eiga bæjarbúar að vita af svona samskiptum. Að þessum orðum sögðum mundi ég eftir tilvitnun, sem eignuð var landsþekktri konu er sagði þegar umræða var um fjölmiðla og að „komast“ í féttirnar; „ja betra er illt umtal en ekker! Mestu máli skiptir að vera í sviðsljósinu.“
Að lokum kvaddi ég forstjórann og óskaði honum velfarnaðar í starfi.
Þorsteinn Jóhannesson, skurðlæknir og fyrrv. Yfirlæknir Hvest