„Það breytir manni að greinast með lífsógnandi sjúkdóm“

Um 70 manns sóttu bleikt boð krabbameinsfélagsins Sigurvonar sem haldið var í Edinborgarhúsinu á Ísafirði í gær. Stemningin var svo sannarlega bleik – bæði var salurinn skreyttur með bleiku og margir klæddust bleikum fatnaði. Hápunktur kvöldsins var án efa mögnuð reynslusaga Hjördísar Þráinsdóttur sem greindist með illvígt brjóstakrabbamein fyrir þremur árum en sökum þess hve snemma meinið greindist hefur hún nú náð fullum bata.

„Á morgun eru komin þrjú ár síðan ég fann krabbameinið mitt – 21. október 2019. Það var einmitt 18 árum fyrr, upp á dag, 21. október 2001 sem mamma mín var jörðuð. Hún dó úr brjóstakrabbameini. Mögnuð tilviljun, finnst mér,“ sagði Hjördís meðal annars í ræðu sinni.

„Það breytir manni að greinast með lífsógnandi sjúkdóm. Það gefur manni færi á að stilla betur fókusinn á það sem skiptir raunverulega máli í lífinu. Börnin mín, fjölskyldan, vinirnir, mín eigin heilsa.“ Óhætt er að segja að enginn í salnum hafi verið ósnortinn og fékk hún standandi lófaklapp að lokum.

Svanhildur Garðarsdóttir, Dagný Hermannsdóttir og Guðmundur Hjaltason fluttu svo tónlistaratriði eins og þeim einum er lagið. Veislukokkarnir Elín og Hugljúf Ólafsdætur bættu í hóp þeirra sem hafa matarást á þeim systrum með því að reiða fram dýrindisveitingar.

Veislustjórarnir Bergþór Pálsson og Albert Eiríksson fóru á kostum og uppskáru ófá hlátrasköll úr salnum. Nýttu þeir tækifærið til að koma fram þökkum til ísfirsks samfélags fyrir góðar móttökur eftir að þeir fluttu vestur og luku kvöldinu á fjöldasöng.

Áhugasömum er bent á heimasíðu Sigurvonar þar sem finna má nánari upplýsingar um félagið. Þar er einnig hægt að skrá sig sem félagsmaður og styðja þannig við krabbameinsgreinda í meðferð með greiðslu ársgjalds.

DEILA