Karl Ásgeirsson hefur tekið við sem viðskiptastjóri Baader á Íslandsmarkaði og sem slíkur aðal tengiliður við íslenskar vinnslur. Karl tekur við góðu búi úr hendi Jochums Ulrikssonar sem látið hefur af störfum hjá Baader Ísland ehf. Jochum hefur stýrt fyrirtækinu af lipurð í áraraðir og byggt upp gott samband við viðskiptavini um allt land. Fyrirtækið hefur þjónað íslenskum sjávarútvegi í meira en 60 ár og hefur verið á lista Creditinfo yfir framúrskarandi fyrirtæki í 12 ár í röð, þar að meðal í ár.
Upphaf starfseminnar má rekja til fimmta áratugarins þegar faðir og afi Jochums stofnuðu fyrirtæki til að þjónusta Baader vélar á Íslandi. Baader í Þýskalandi varð strax hluthafi og hefur Baader Ísland sinnt markaðinum æ síðar. Við kaup Baader samstæðunnar á Skaganum 3X árið 2022 var tekin sú ákvörðun að sameina krafta Baader Íslands og Skagans 3X. Markmiðið er að koma á enn öflugri þjónustu við viðskiptavini og styrkja sameiginlega nýsköpun í sjávarútvegi.
Skilvirkar lausnir
Reynsla Karls af íslenskum sjávarútvegi gefur honum góða innsýn í þær áskoranir sem innlendir vinnsluaðilar standa frammi fyrir. Hann gjörþekkir vinnslulausnir Skagans 3X og Baader og hvernig þær geta skilað útvegsaðilum meiri vinnsluhraða, betri nýtingu og aukinni framlegð. „Ég legg áherslu á að kynnast viðskiptavinunum með heimsóknum og gefa mér tíma til að skilja þeirra áskoranir og finna þannig réttar lausnir fyrir hvern og einn,“ segir Karl sem unnið hefur hjá Skaganum 3X í yfir 15 ár. „Fyrirtækin mega eiga von á því að ég banki upp á og kynni mig til leiks. Ég vil þakka þeim sem nú þegar hafa tekið á móti mér og átt við mig samskipti í nýju starfi.“
Vinnsluráðgjöf og traust þjónusta
Lögð verður áhersla á að bjóða upp á fyrsta flokks vinnsluráðgjöf og trausta þjónustu hvar sem er á landinu. „Með því að bjóða Baader lausnir með Skaginn 3X vörum náum við til breiðari hóps og getum kynnt nýjar lausnir til viðskiptavina sem eru ekki endilega með Baader vélar í dag,“ segir Karl. „Það gefur auga leið að með þessu getum við boðið heildarlausnir til breiðari hóps og fyrir lengri virðiskeðjur en áður.“
Þéttara þjónustunet
Með samvinnu Skagans 3X og Baader Ísland mun þjónustan færast á eina hendi. Saman munu félögin nýta þjónustunetið og geta boðið upp á heilstæða nálgun um allt land. ,,Þetta einfaldar mjög þjónustuna við viðskiptavini okkar. Nú geta þeir hringt í eitt númer, sem þjónar öllum okkar vörum og vinnslulínum,“ segir Karl. „Eins erum við að bjóða þjónustusamninga sem er liður í því að bæta þjónustuna, koma í veg fyrir bilanir og stytta niðurtíma hjá okkar viðskiptavinum.“
Nýsköpun og framþróun
Skaginn 3X og Baader hafa sameinað krafta sína til auka við nýsköpun í iðnaðinum. Þau byggja á styrkum stoðum þýskrar tækni og íslensks hugvits. „Ég ber miklar væntingar í brjósti og hlakka til að bjóða lausnir sem byggja á yfir hundrað ára framþróun, en BAADER varð einmitt 100 ára árið 2019,“ útskýrir Karl. „Við sjáum strax tækifæri í virðiskeðjunni þar sem samlegðaráhrifin geta skilað miklum ávinningi í bæði sjó- og landvinnslu. Nýjar, uppfærðar útgáfur af traustum Baader vélum eru komnar á markað og saman geta fyrirtækin boðið heildræna nálgun á allt vinnsluferlið, frá veiðum til neytendapakkninga.“