Matvælastofnun hefur samþykkt umsókn um lyfjameðhöndlun til varnar laxalús í sjókvíum í einni eldisstöð í Arnarfirði. Þetta kemur fram á vefsíðu Mast í dag. Þar segir að meira hafi verið af laxalús að undanförnu en í hefðbundnu árferði í kjölfar mikilla hlýinda í vetur og miða aðgerðirnar að því að fyrirbyggja uppsöfnun laxalúsar í sumar. Einnig segir að þetta sé í fyrsta sinn frá því á níunda áratugnum sem gripið hefur verið til lyfjameðhöndlunar gegn laxalús á Íslandi. Lyfjagöfin fer þannig fram að kvíunum er lokað með dúk og fiskurinn baðaður upp úr lyfjalausn.
Lúsatalningar einnar sjókvíaeldisstöðvar í Arnarfirði nú í vor sýndu aukið magn af laxalús. Í vetur hafa aðstæður í sjó verið óvenjulegar vegna mikilla hlýinda. Á vef Mast segir að meðalhiti sjávar í Arnarfirði var 3,5°C í febrúar á þessu ári en 1,5°C á sama tíma í fyrra.
Matvælastofnun fór í eftirlit á stöðinni eftir að stofnuninni bárust þessar upplýsingar, ásamt beiðni stöðvarinnar um að fá að meðhöndla fiskinn í stöðinni gegn laxalús. Stofnunin mat ástandið þannig að tilefni væri til að grípa inn í og fyrirbyggja að smitið nái að magnast upp með hækkandi sumarhita
Arnarlax hf. er eina fyrirtækið með sjókvíar í Arnarfirði. Víkingur Gunnarsson, framkvæmdastjóri Arnarlax, vildi ekki tjá sig um lyfjameðhöndlunina þegar eftir því var falast. Í vetur þegar rætt var við Víking um laxalús í Arnarfirði sagði hann að lúsin væri á undanhaldi og taldi að ekki væri þörf á að hafa áhyggjur af henni.
Sjá nánar á vef Mast.