Taupokarnir taka yfir

Í Suðupotti sjálfbærra hugmynda sem starfræktur var í Skóbúðinni í vetur komu fram margar hugmyndir um með hvaða hætti íbúar á svæðinu gætu tamið sér umhverfisvænni lífsstíl. Ein var sú hugmynd sem oftast heyrðist og það var að komið yrði upp taupokastöðvum á Ísafirði svo sporna mætti við notkun plastpoka. Í vetur hófu Suðupottsþátttakendur að sauma poka og má segja að fyrsta hlassið sé tilbúið til notkunar.

Í næstu viku verður Græn vika í Ísafjarðarbæ og þá er hugmyndin að allir leggist á eitt við að útbúa fjölnota poka í stórum stíl og hefur Hildur Dagbjört Arnardóttir, umhverfisfrumkvöðull á Ísafirði fengið til liðs við sig hina ýmsu aðila í bænum til að pokasafnið verði sem stærst. Nemendur í Grunnskólanum á Ísafirði, Suðureyri, Flateyri, Þingeyri, Bolungarvík og Súðavík munu til að mynda gera poka úr bolum.  Vesturafl og Fjölsmiðjan framleiða einnig poka í stórum stíl og munu einnig sjá um móttöku á fjölnota pokum, merkja þá og koma þeim í pokastöðina. Þá verður Klæðakot með opna taupokasmiðju þar sem tekið verður við gömlum gardínum, sængurfötum eða hverju öðru sem nothæft er í taupoka. Saumastofan stendur svo opin öllum þeim sem vilja leggja hönd á plóg við að sauma poka úr efninu.  Í samvinnu við Fablab verður smíðaður pokastandur úr endurnýttum efnivið.

Hildur Dagbjört segir það ekki þurfa að vera flókið að breyta gömlum bolum í poka og hér má sjá þrjár útfærslur sem styðjast má við:

bolapoki

Texti: Aðferð 1 er ofureinföld og tekur ekki nema ca. 5 mínútur, skæri og að binda einn hnút.

bolapoki-II

Texti: Aðferð 2 er líka einföld en tekur ca. 15-30 mínútur (eftir aldri), skæri og binda marga hnúta.

Aðferð 3 er fljótleg og einföld en þarf saumavél og skæri:

https://www.youtube.com/watch?v=hnRjkdLfxEQ

Hildur Dagbjört segir líka einfalt að gera ýmiskonar poka úr endurnýttum efnum, gömlum gardínum, rúmfötum, púðaverum og fleiru þess háttar: „Það eru engar kröfur um útlit, allir pokar eru velkomnir sama hvernig þeir líta út.  Það er til fullt af hugmyndum á netinu og á youtube, en líka einfalt að láta hugmyndaflugið ráða ferðinni.“

Fánasmiðjan á Ísafirði styrkir verkefnið og hafa þar verið útbúnar merkingar fyrir 500 poka. Þá hefur Rauði krossinn á Ísafirði safnað mikið af bolum sem fá brátt nýtt líf í hlutverki taupoka.

„Það er svo mikilvægt að allir krakkar, ungt fólk og fullorðnir – allir íbúarnir á Norðanverðum Vestfjörðum, búi til poka og finnist að þeir eigi eitthvað í þessu verkefni!  Það passar svo vel að taka þetta átak í Grænu viku Ísafjarðarbæjar og opna okkar eigin pokastöð svo í lok vikunnar. Við getum svo í framhaldinu séð aðra ganga um bæinn með pokana sem við gerðum. Er það ekki dásamlegt?“ Segir Hildur Dagbjört og bætir við hvatningu inn á alla vinnustaði á svæðinu um að allir taki eins og einn 15 mínútna kaffitíma í að gera einn poka á mann – og þannig megi fylla bæinn af taupokum og draga úr plastpokanotkuninni.

Pokastöðvar eru að sækja í sig veðrið með aukinni umfjöllun um skaðsemi plasts í umhverfinu og hefur til að mynda slík verið á Höfn í Hornafirði í eitt og hálft ár og gengið mjög vel:

„Nú er fullt af fólki út um allt land að feta í þeirra fótspor og gera pokastöð í sínu byggðalagi.  Og ekki nóg með það, þá er verið að koma upp svona pokastöðum út um allt í heiminum og við verðum hluti af alþjóðlegu pokastöðvaverkefni, og pokarnir geta flakkað á milli allra boomerang-bags pokastöðvanna á íslandi og í öllum heiminum!“ Segir Hildur Dagbjört sem bjartsýn er á að verkefnið verði farsælt á Ísafirði sem víðar:

„Fyrsta pokastöðin verður í Nettó á Ísafirði þar sem allmargir leggja leið sína fyrirvaralaust og hefur oft vantað fjölnotapoka. En að sjálfsögðu verða opnaðar fleiri pokastöðvar, t.d. í Bolungarvík, Súðavík, Þingeyri, Flateyri, Suðureyri og Bónus, svo lengi sem við erum tilbúin til að sauma poka í pokastöðvarnar.“

Hver og einn ætti að geta gert í það minnsta einn poka.  Pokunum má skila í Vesturafl (Suðurgötu 9) milli 10 og 16 virka daga, þar sem þeir verða merktir pokastöðinni. Hafi einhverjir spurningar varðandi verkefnið, vilji koma að verkefninu á annan hátt eða komist ekki á opnunartíma Vesturafls þá má hafa samband við Hildi Dagbjörtu í síma 8445963 eða á netfangið hda@verkis.is

annska@bb.is

DEILA