Piff hátíðin (Pigeon International Film Festival) hefst í Ísafjarðarbíói í dag og stendur fram á sunnudagkvöld.
Opnunarhátíðin hefst kl. 17 og strax á eftir verður sýnd bútanska myndin Lunana: Yak in the classroom, sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna sem besta erlenda myndin nú í febrúar.
Því næst verður sýnd kanadíska kvikmyndin Happy FKN sunshine sem er saga um síðasta kaflann í lífsferli iðnaðarbæjar sem sýndur er með augum verkalýðsæskunnar í bænum. Ungmennin stofna hljómsveit og ætla sér stóra hluti – ef þeim bara tekst að sleppa úr deyjandi bænum og frá hvort öðru. Að henni lokinni verða sýndar nokkrar stuttmyndir og svo hefst dagskráin að nýju kl. 16 á morgun.
Allar sýningar hátíðarinnar eru gestum að kostnaðarlausu. Helstu styrktaraðilar hennar eru kvikmyndastofnun, Ísafjarðarbær og ýmis fyrirtæki. Sýningarstaðir eru Ísafjarðarbíó, Edinborgarhúsið á Ísafirði og bókasafnið í Súðavík.
Þrír Ísfirðingar með brennandi kvikmyndaáhuga, Fjölnir Baldursson, Steingrímur Rúnar Guðmundsson og Baldur Páll Hólmgeirsson komu hátíðinni og hafa svo fengið til liðsinnis við sig fjölda heimamanna.