Dansnemendur sem stundað hafa nám við Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar í vetur héldu í vikunni vorsýningu sína í Edinborgarhúsinu á Ísafirði. Þar tóku yfir 130 börn þátt í glæsilegri sýningu sem unnin var af kennara þeirra Hennu-Riikku Nurmi í samstarfi við nemendurna. Sýningin var tvískipt þar sem annars vegar komu fram yngri nemendur skólans sem og þeir nemendur sem tekið hafa dans sem val í frístund við Grunnskólann á Ísafirði í vetur, og sýningu eldri nemenda, sem sumir hverjir hafa stundað dansnám í áratug þrátt fyrir að vera enn ungir að árum. Fjölmargir komu og báru verkin augun og telur Henna að um 400 manns hafi séð sýningarnar. Viðbrögðin létu ekki á sér standa á samfélagsmiðlum þar sem sýningin var lofuð í hástert.
12 ár með hléi
Henna segir glatt yfir danslífinu á Ísafirði meðal yngri kynslóðarinnar. Í vetur hafa yfir 100 nemendur stundað nám við skólann þar sem kenndur er ballett, nútímadans, jazzdans og skapandi dans með yngri hópunum. Í vetur hafa svo bæst við um 30 nemendur sem tekið hafa dans-vinnusmiðjur í frístundinni við G.Í. Henna, sem er finnsk, kom fyrst til Ísafjarðar árið 2005 og tók þá til við að kenna við Listaskólann og vorið eftir bauð hún upp á fyrstu vorsýningu nemenda í Edinborgarsal, sem þá var enn á framkvæmdastigi. Ef undan eru skilin tvö ár er Henna fór á heimaslóðir í Finnlandi hefur hún verið búsett á Ísafirði og dansvætt komandi kynslóðir Ísfirðinga. Hún hefur unnið hreint ótrúlegt starf við innleiðingu á danslistinni á litlu samfélagi á hjara veraldar, en hún er eini starfandi danskennari Listaskóla Rögnvaldar Ólafssonar.
Strákunum fjölgar
Dansinn hefur verið vinsæll meðal stúlkna allt frá upphafi en síðustu ár hefur strákunum fjölgað, sem Henna segir afar ánægjulega þróun: „Þeir eru að fatta að þetta snýst ekki bara um ballett – að dansinn geti í raun verið skemmtilegur. Hann hentar til dæmis vel strákum sem kannski vilja ekki fara í hóp- eða keppnisíþróttir,“ segir Henna og bætir við að nú séu farnir að koma til hennar strákar sem vilji vera eins og Michael Jackson. Strákarnir vöktu til að mynda verðskuldaða athygli á vorsýningunni þar sem einn hópurinn hafði sýndi dansmyndband, sem þeir unnu mikið til sjálfir.
Eldri nemendur aðstoða þá yngri
Undirbúningur fyrir vorsýninguna er langur og strangur. Henna segir að hugmyndirnar byrji að vakna fyrir jól og strax í janúar er byrjað að æfa hjá eldri hópunum og fyrir páskafrí séu allir dansar tilbúnir. Hún segir reynsluna afskaplega góða og drjúga fyrir krakkana þar sem þau eru ekki einvörðungu að læra að dansa, heldur einnig læra að vinna í leikhúsi. Eldri nemendurnir taki til að mynda fullan þátt í undirbúa sýningarnar sem og að aðstoða með þau yngri á meðan á sýningum stendur. En líkt og vera vill á litlum stað þarf fólk að búa yfir talverðri fjölhæfni til að láta hlutina ganga upp og var Henna að þessu sinni að keyra hljóð og ljós sýninganna fram í sal á meðan að á þeim stóð.
Áhugasvið krakkanna ræður söguþræði
Þeir sem séð hafa nemendasýningarnar vita að þar ótrúlegt þrekvirki unnið og svo ekki sé minnst á hversu skemmtilegar sýningarnar eru iðulega og listilega tengdar saman þar sem allir fá að spreyta sig. Henna segist hlusta eftir hvar áhugasvið nemendanna liggi þegar hún gerir söguþráð verkanna og á sýningunni í ár var að finna strákakvöld og náttfatapartý, lítil tröll, tölvuleiki, ástarsögu, fréttatíma og hinna ýmsu veralda verur. Þá sýndu elstu nemendurnir balletinn Coppélia sem í fyrri hluta verksins var trútt upprunalegu dansverki Arthur Saint-Léon með tónlist Léo Delibes, en í seinni hlutanum fór verkið í óvæntar áttir með sköpunargleðina að leiðarljósi.
Allir leggjast á eitt
Henna segir það óneitanlega vera mikla vinnu að setja upp vorsýninguna og við bætist að á vorin taki eldri dansnemendur einnig próf með prófdómara – svo álagið sé talvert þær síðustu vikur sem skólinn starfar. Henna segist þó ekki fyrir nokkra muni vilja hætta við sýninguna þó hún sé á svipuðum tíma og prófin. Hún sé einfaldlega of mikilvæg til þess og geri svo mikið fyrir nemendurna sem finnst mikið til þess koma að fá að setja upp sýningu í Edinborgarhúsinu. Hún segir líka að svona sé ekki gert án aðstoðar frá foreldrum og fólkinu í samfélaginu og það séu allir boðnir og búnir að hjálpa til, lána leikmuni, útbúa búninga eða aðstoða með einum eða öðrum hætti og vill hún skila kæru þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt.
Frá þriggja ára upp í tvítugt
–Það er samt ekki annað hægt en að spyrja Hennu hvort þetta sé ekki of mikið fyrir eina manneskju?
„Ég hugsa það stundum og sér í lagi þegar kemur fram á vorið. Þá kemur stundum í kollinn spurningin: Mun ég lifa þetta af? En svo fer undirbúningurinn fyrir sýningarnar á fullt og þá fer maður bara á einhverskonar sjálfsstýringu. Svo við lok sýningar þegar allir eru búnir að standa sig svo vel og koma fram og hneigja sig – þá er svo gaman og þá veit ég að þetta er allt þess virði.“
Nemendur sem stunda nám við skólann eru frá þriggja ára aldri og upp í tvítugt og eru elstu nemendurnir til dæmis í dansinum fimm sinnum í viku. Ekki er dansskóla sem þennan að finna á landsbyggðinni, ef Akureyri er undan skilin og segir Henna nemendafjölda hljóta að vera met miðað við höfðatölu.
Vinna með vestfirska draugasögu
Henna er einnig að vinna að eigin verki um þessar mundir sem hún vinnur með finnsku listakonunum Marjo Lahti og Johanna Eränkö. Þar sameinast dans, leiklist og tónlist í einu verki, Undir yfirborði, þar sem unnið er með vestfirska draugasögu, einnig verða á hverjum stað sem verkið verður sýnt unnið með lókal listamönnum sem koma með sitt innlegg í sýninguna. Verkið verður frumsýnt í Helsinki í ágúst og verður það sýnt á Ísafirði undir lok september, en einnig er ráðgert að sýna það á Nordic Fringe listahátíðinni í Gautaborg og á fleiri stöðum.