Hafrannsóknastofnun leggur til að loðnuafli veturinn 2022/2023 verði ekki meiri en 218 400 tonn.
Ráðgjöfin kemur í stað upphafsráðgjafar upp á 400 000 tonn sem byggði á magni ókynþroska loðnu í haustmælingum 2021. Ráðgjöfin verður endurskoðuð að loknum mælingum Hafrannsóknastofnunar á stærð veiðistofnsins í janúar/febrúar eins og aflaregla strandríkja fyrir stofninn gerir ráð fyrir.
Þessi endurskoðaða ráðgjöf byggir á niðurstöðum bergmálsmælinga á loðnustofninum á rannsóknaskipunum Árna Friðrikssyni og Tarajoq á tímabilinu 27. ágúst til 29. september (sjá mynd). Um var að ræða umfangsmikla yfirferð og urðu litlar tafir vegna veðurs.
Hafís takmarkaði yfirferð nyrst á rannsóknasvæðinu, en ekki er talið líklegt að loðna hafi verið á svæðinu sem var sleppt.