Mikill meirihluti landsmanna er andvígur frumvarpi um sölu áfengis í matvöruverslunum. Þetta kemur fram í nýrri könnun sem Félagsvísindastofnun vann fyrir Rúnar Vilhjálmsson, prófessor á heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands, og greint er frá á vef RÚV. Könnunin er hluti af netkönnun Félagsvísindastofnunar. Hún náði til 1733 18 ára og eldri á landinu öllu. Fólkið var valið af handahófi úr þjóðskrá. Spurt er um ýmis samfélagsleg málefni í könnuninni og var ein af spurningunum um viðhorf almennings til frumvarps um sölu áfengis í verslunum. Svarhlutfall var 65%. Samkvæmt könnuninni er tæplega 70% landsmanna andvígur frumvarpinu og meirihluti allra samfélagshópa og kjósenda allra stjórnmálaflokka er á móti frumvarpinu.
Andstaðan við frumvarpið er meiri á landsbyggðinni, þar sem 74 prósent voru á móti en 66,5 prósent á höfuðborgarsvæðinu.